„Það sem er einfaldlega að gerast er að hér er allt á fullu. Við erum að undirbúa útboð á lóðum á Bakka og hér er fullt af verktökum sem eru að skoða svæðið og meta stöðuna," segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings.
Landsvirkjun tilkynnti á mánudag um orkusamning fyrirtækisins og PCC Bakki Silicon hf. Orkufyrirtækið mun samkvæmt honum útvega rafmagn fyrir fjörutíu milljarða króna kísilmálmverksmiðju sem PCC hyggst reisa á Bakka við Húsavík. Mánuði áður var tilkynnt um samning Landsnets og PCC um raforkuflutninga og tveimur vikum síðar bárust fréttir af ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að heimila ríkissjóði og Norðurþingi að veita fé til uppbyggingar iðnaðarhafna á Húsavík, verkefni upp á fjóra milljarða króna. Í síðustu viku samþykkti ESA síðan ríkisaðstoð til PCC vegna byggingar verksmiðjunnar. Orkusamningur Landsvirkjunar og PCC bíður nú samþykkis ESA.
„Þetta er tilkynningaskylda en maður hefur ekki áhyggjur af þeim málum," segir Bergur.
Bæjaryfirvöld ræða nú við önnur fyrirtæki sem hafa sýnt iðnaðaruppbyggingu á Bakka áhuga. Á meðal þeirra eru franska stórfyrirtækið Saint Gobain sem hefur óskað eftir lóð undir slípiefnaverksmiðju og íslenska félagið Klappir Development sem vill byggja og reka 120 þúsund tonna álver á svæðinu.
Ingvar Unnsteinn Skúlason, framkvæmdastjóri Klappir Development, segir verkefnið í góðum farvegi og að félagið ræði nú við Landsvirkjun um orkusölu.
„Það er ýmislegt í deiglunni sem ekki er tímabært að greina frá," segir Bergur spurður hvaða önnur fyrirtæki eigi nú í viðræðum við bæjaryfirvöld.
„En það er þannig að við erum farin að finna fyrir öðrum umsvifum. Hér á Húsavík eru allt í einu komin þrjú endurskoðunarfyrirtæki, tvær verkfræðistofur og ýmis önnur fyrirtæki hafa komið hingað til að skoða aðstæður. Svo er verið að stækka hótel á staðnum um 4.700 fermetra og deiliskipuleggja fyrir öðru. Við erum því farin að finna fyrir þessum afleiddu áhrifum sem menn hafa óskað sér og það er mjög jákvætt," segir Bergur.
Norðurþing undirbýr útboð lóða á Bakka
Haraldur Guðmundsson skrifar

Mest lesið


Svona munu stækkuð Skógarböð og hótel líta út
Viðskipti innlent

Hagnaðist um tæpar sjötíu milljónir króna
Viðskipti innlent

Eyþór hættur sem framkvæmdastjóri Hopp
Viðskipti innlent

Skrautleg saga laganna hans Bubba
Viðskipti innlent

Sorglegt að þurfa að hætta rekstri eftir 38 ár í Hveragerði
Viðskipti innlent

Sætta sig ekki við höfnun Kviku
Viðskipti innlent

Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent

Starbucks opnaði á Laugavegi í dag
Viðskipti innlent

Ná að spara hver mánaðarmót en hvað svo?
Viðskipti innlent