Viðskipti innlent

Iceland opnar tvær verslanir í Breiðholti

Haraldur Guðmundsson skrifar
Nýju verslanirnar verða samtals níu hundruð fermetrar að stærð.
Nýju verslanirnar verða samtals níu hundruð fermetrar að stærð. VísirIPjetur
Verslunarfyrirtækið Iceland ætlar að opna nýja matvöruverslun í Arnarbakka 2 í Neðra-Breiðholti um miðjan apríl í húsnæði sem lengi hýsti verslun 10-11.

„Húsnæðið er um fjögur hundruð fermetrar að stærð og við ætlum að breyta þeirri verslun í Iceland-verslun,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Iceland.

Iceland stefnir einnig að opnun nýrrar matvöruverslunar í Vesturbergi 76 í Breiðholti í húsnæði sem áður hýsti verslunina Straumnes. Verslunin mun að sögn Árna verða opnuð öðrum hvorum megin við næstu mánaðamót en iðnaðarmenn vinna nú við breytingar á húsnæðinu sem er um fimm hundruð fermetrar að stærð.

„Hún verður með svipuðu sniði og verslun okkar í Engihjalla,“ segir Árni.

Fyrsta verslun Iceland í Engihalla í Kópavogi var opnuð sumarið 2012. Fyrirtækið rak um tíma verslun við Fiskislóð úti á Granda en henni var lokað í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×