„Ég er gríðarlega svekktur með þessa ákvörðun og velti því fyrir mér á hvaða forsendum hún er tekin,“ segir Ragnar Thorarensen um þá ákvörðun Vífilfells að taka Diet Coke af markaði, eins og Vísir sagði frá í morgun.
Hann er mikill aðdáandi Diet Coke, en konan kom honum á bragðið þegar þau kynntust. „Við hjónin höfum drukkið það síðan 1991. Við eigum alltaf tveggja lítra flösku í ísskápnum. Við drekkum ekki mikið gos og í raun ekkert annað en þessa einu Diet Coke á viku. Það kaldhæðnislega í þessu er að áður en ég hitti konuna mína þá drakk ég Diet Pepsi. Konan kynnti mig fyrir Diet Coke.“
Stóðst prófið
Ragnari þykir Diet Coke gríðarlega gott og segist finna mikinn mun á því og öðrum sykurlausum kóladrykkjum sem Vífilfell er með á markaði, eins og Coke Zero og Coke Light.
„Ég tók svokallað „Blind-test“ á sínum tíma og stóðst það. Fann greinilegan mun. Það sem meira er, sá sem stóð fyrir prófinu var kennarinn minn í markaðsfæði, Þórhallur Örn Guðlaugsson, sem þá sat í stjórn Vífilfells. Hann hélt að ég myndi ekki finna muninn, en ég gerði það. Mér finnst Diet Coke einfaldlega lang besti drykkurinn af þessum þremur,“ útskýrir Ragnar.
Óskiljanleg ákvörðun
Ragnar telur ákvörðunina óskiljanlega. „Ég þekki marga sem drekka Diet Coke og neita að trúa því að drykkurinn sé ekki vinsæll. Ég held að þetta sé ákveðin neyslustýring, það er gagngert búið að draga úr aðgengi að drykknum. Ekki er hægt að kaupa Diet Coke í bíó, ekki í sjálfsölum og svo framvegis. Auðvitað hlýtur salan að dragast saman þegar aðgengið er svona slæmt.“
„Ég hefði gaman af að vita á hvaða forsendum þessi ákvörðun er tekin hjá Coca Cola Company að hætta með Diet Coke. Er nafnið Diet ef til vill orðið neikvætt? Í mínum huga snýst þetta ekki um það að Diet Coke hafi verið orðið óvinsælt heldur hafi einhver í vöruþróuninni komið með nýja uppskrift og sagt: Þetta er miklu betra! Svo er farið út í dýra markaðssetningu sem ef til vill gengur ekki nógu vel þar sem nýji drykkurinn er að slást í sama markhópnum,“ segir Ragnar.
„Konan kynnti mig fyrir Diet Coke“
Kjartan Atli Kjartansson skrifar

Mest lesið

Hagnaður Arion flaug fram úr væntingum
Viðskipti innlent

Hvenær er skynsamlegt að taka út viðbótalífeyrissparnað?
Viðskipti innlent

Fjárfestar í sjávarútvegi fari að líta annað
Viðskipti innlent



Stígur til hliðar vegna „ólíkrar sýnar“ á breytingar
Viðskipti innlent

Davíð nýr framkvæmdastjóri áfangastaða hjá Arctic Adventures
Viðskipti innlent

Seldi íbúðina og keypti Bitcoin í staðinn
Viðskipti innlent

Völdu Noreg fram yfir Ísland þrátt fyrir að besta lausnin væri hér
Viðskipti innlent

Íbúðum í byggingu fækkar
Viðskipti innlent