
„Einstaklega góð síld," sagði Friðrik Mar. „Síldin hefur verið 320-330 grömm meðalvigt, bráðfeit og óvenju vel á sig komin á þessum tíma. Við höfum ekki séð svona vel haldna síld á þessum tíma í nokkur ár."
Síldin er öll unnin í landi til manneldis hjá Loðnuvinnslunni, ýmist fryst eða söltuð, og fer til kaupenda á Norðurlöndum og í Kanada.
Öflugt kælikerfi nýja skipsins skilar síldinni í land við mínus eina gráðu og fyrir vinnsluna skiptir einnig verulegu máli að fá hana hæfilega feita, eins og hún er þessa dagana, að sögn Friðriks.
Um 140 manns starfa hjá Loðnuvinnslunni og má því ætla að nánast annar hver vinnandi maður í þessari 700 manna byggð starfi hjá fyrirtækinu.
