Viðskipti innlent

Jón Ásgeir tekur sæti í stjórn breskrar rakarakeðju

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson hefur tekið sæti í stjórn bresku rakarakeðjunnar Murdoch. Um er að ræða klassíska breska rakarakeðju sem selur klippingu og rakstur á 8400 krónur.

Frá þessu er greint í Telegraph. Í fréttinni er greint frá því að Jón Ásgeir taki sæti í stjórn Murdoch vegna starfa sinna fyrir fyrirtækið Guru Capital. Þá kemur fram að annar starfsmaður Guru Capital sé með honum í stjórn Murdoch. Ekki kemur fram hvort Guru Capital, sem er sagt í 100% eigu Ingibjargar Pálmadóttur, hafi fjárfest í Murdoch.

Murdoch er sagt með fínni þjónustufyrirtækjum á sínum markaði. Klipping og rakstur kostar 42 sterlingspund, jafnvirði 8400 króna. Þá er fyrirtækið með eigin snyrtivörulínu, eins og rakhnífa, krem og slíkt.

Ekki er langt síðan Guru Capital keypti fjórðungshlut í Muddy Boots, sem selur lúxus kjötafurðir, m.a hamborgara.

Samkvæmt Companies House, fyrirtækjaskránni í Lundúnum, var fyrirtækið Guru Capital áður kallað JMS Partners, en nafni þess hefur verið breytt þrisvar. JMS Partners er fjárfestingarfélag sem var áður í eigu Jóns Ásgeirs, Gunnars Sigurðssonar fyrrverandi forstjóra Baugs og Don McCarthy, viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs en hann er fyrrverandi stjórnarformaður House of Fraser.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×