Viðskipti innlent

Robert Tchenguiz vill 20 milljarða frá SFO

Athafnamaðurinn Robert Tchenguiz hefur stefnt efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, SFO, vegna rannsóknar á viðskiptum hans við Kaupþing. Hann krefst 100 milljóna punda í bætur, eða 20 milljarða króna. Vincent Tchenguiz, bróðir Roberts, hefur einnig stefnt SFO eins og Vísir hefur greint frá. Þeir voru báðir handteknir í mars í hitteðfyrra.

Ítarlega er fjallað um stefnuna á vef breska blaðsins Time. Í stefnunni segir Robert að eftir handtökurnar hafi trúverðugleiki hans stórskaðast. Hann væri ekki boðaður lengur á viðskiptafundi sem honum hafði áður verið boðið á. Þá hafi stór viðskiptatækifæri glatast. Tapið nemi rúmum 90 milljónum punda. Auk þess segir hann að húsleitir sem gerðar voru heima hjá honum hafi valdið fjölskyldu hans óþarfa óþægindum og kvíða.

Áður hefur komið fram að heimildir til þeirra húsleita og handtaka sem voru gerðar voru byggðar á röngum upplýsingum sem dómari fékk í hendur. Dómari í yfirrétti úrskurðaði síðasta sumar að aðgerðirnar hefðu verið ólöglegar. Rannsókn málsins var hætt í október síðastliðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×