Viðskipti innlent

Mesta hækkun frá fyrrasumri

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Greining Íslandsbanka segir hraða í verðhækkun húsnæðis hafa aukist að undanförnu.
Greining Íslandsbanka segir hraða í verðhækkun húsnæðis hafa aukist að undanförnu. Fréttablaðið/Stefán
Hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í maí hefur ekki verið meiri í einum mánuði síðan í júní í fyrra. Þetta kemur fram í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka.

Hækkunin nam 1,3 prósentum í mánuðinum og er sögð skýrast að mestu af mikilli hækkun á verði íbúða í fjölbýli, en þær hafi hækkað um 1,7 prósent milli mánaða. „Verð sérbýla hækkaði hins vegar um 0,1 prósent á milli mánaða.“

Síðustu 12 mánuði er íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu sagt hafa hækkað um 6,5 prósent, en um 3,2 prósent að raunvirði.

Þá er íbúðaverð á landinu öllu sagt hafa hækkað um 0,6 prósent í maí og um 4,8 prósent yfir síðustu tólf mánuði samkvæmt tölum Hagstofunnar, en Þjóðskrá birti í gær vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.

"Hefur íbúðaverð nú hækkað um 19,0 prósent frá því að það náði lágmarki eftir hrun. Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur hins vegar hækkað mun minna sökum þeirrar miklu veðbólgu sem hér hefur verið á tímabilinu," segir í umfjöllun Greiningar.

"Þannig hefur íbúðaverð hækkað um 1,4 prósent að raunvirði yfir síðustu tólf mánuði og um 5,1 prósent frá því að það náði lágmarki sínu eftir hrun, sem var á fyrri hluta árs 2010."

Raunverð íbúðarhúsnæði á landinu öllu er enn sagt ríflega 30 prósentum lægra en það var þegar það stóð hvað hæst í verðbólunni sem var á þessum markaði fyrir hrun, í lok árs 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×