Viðskipti innlent

Stöð 3 fer í loftið á laugardagskvöld

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Stöð 3 fer í loftið á laugardagkvöld en það er ný sjónvarpsstöð í eigu 365 miðla. Stöð 3 er ætlað að höfða til yngri áskrifenda, á aldrinum 20-35 ára. Að sögn Freys Einarssonar, sjónvarpsstjóra 365, verður dagskrá stöðvarinnar létt og skemmtileg.

„Við töldum okkur finna þörf á nýrri sjónvarpsstöð fyrir yngri áskrifendur og ákváðum að ríða á vaðið og setja í loftið nýja sjónvarpsstöð,“ sagði Freyr í samtali við Vísi.

Innlend dagskrágerð verður í bland við erlenda sjónvarpsþætti. Meðal annars má nefna að Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir verður með skemmtilegan matreiðsluþátt. Ragga Eiríkis mun einnig stýra makaleitarþætti. Stórir erlendir sjónvarpsþættir á borð við bandaríska X-Factor, framhaldsþættirnir Shameless, Banshee o.fl. verða á dagskrá.

Stöð 3 verður innifalið í áskrift af Stöð 2 og því munu áskrifendur Stöð 2 hafa aðgengi að nýrri sjónvarpsstöð frá og með 8. september. Fleiri breytingar verða á sjónvarpsstöðvum 365 því að krakkarnir munu eignast sína eigin sjónvarpsstöð. Hingað til hefur Krakkastöðin verið í samfloti með Stöð 2 Gull en verður nú á sérstakri rás með dagskrá frá morgni til kvölds.

Á heimasíðu Stöð 3 má finna frekari upplýsingar um stöðina og þar er einnig hægt að kaupa áskrift. Hér að neðan má sjá stiklur úr nokkrum af þeim sjónvarpsþáttum sem verða á dagskrá í vetur á Stöð 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×