Handbolti

Róbert | Vitum að það er allt hægt

Sigurður Elvar Þórólfsson í Barcelona skrifar
Róbert Gunnarsson hefur fína tilfinningu fyrir leiknum gegn Frökkum í kvöld í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handbolta. Leikurinn fer fram í Palau Sant Jordi höllinni í Barcelona en íslenska liðið æfði þar í morgun í fyrsta sinn eftir undarlegt 13 tíma ferðalag frá Sevilla í gær.

„Það er fín tilfinning hjá okkur fyrir þessum leik, við verðum vel undirbúnir, og við höfum oft mætt Frökkum. Sigrað þá og gert jafntefli við þá – við eigum alveg séns, við vitum það alveg. Við erum flestir búnir að vera lengi í þessu liði þannig að við vitum að það er allt hægt. Það væri verra að fara að mæta andstæðing sem við höfum aldrei unnið. Nú er þetta bara bikarkeppni og jafnþýðingarmikið fyrir bæði lið. Við þurfum að spila okkur vel inn í sóknina og ekki láta narra okkur of snemma í skot eða sendingar. Númer eitt, tvö og þrjú, eins og alltaf, er það vörnin og markvarslan. Ef við náum að þvinga þá í þær aðgerðir sem við viljum að þeir taki þá er það lykillinn."

Róbert hefur átt við meiðsli að stríða frá því í fyrsta leiknum gegn Rússum í riðlakeppninni en hann verður klár í slaginn gegn Frökkum í kvöld. „Ég er sæmilegur, ég er klár ef liðið þarf á mér að halda, Kári (Kristján Kristjánsson) er líka búinn að vera mjög góður. Við munum leggja okkur alla fram og ef það er ekki nóg þá erum við allavega ekki að spila einhverja þýðingarlausir leiki það sem eftir er," sagði Róbert Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×