Viðskipti innlent

Velta á hlutabréfamarkaði eykst gífurlega á milli ára

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Vilhelm
Velta á skuldabréfamarkaði hafi degist nokkuð mikið saman á þessu ári, samanborið við sama tímabil í fyrra. Frá þessu er sagt í Viðskiptablaðinu í dag. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var veltan 3.907 milljarðar króna samkvæmt Kauphöllinni en á sama tímabilli í ár er hún ekki nema 2.795 milljarðar. Það er samdráttur um 39,7% á milli ára.

Öfuga sögu er að segja af veltu á hlutabréfamarkaði, en þar hefur 259% aukning orðið. Á fyrstu níu mánuðum 2012 var veltan 107 milljarðar en 384 milljarðar króna á þessu ári.

Íslandsbanki er orðinn stærsti aðililinn í miðlun hlutabréfa og Landsbankinn er enn stærstur  í miðlun skuldabréfa.  Fimm stærstu aðilarnir í miðlun hlutabréfa eru með 92% markaðarins en fimm stærstu á skuldabréfamarkaði eru með 93%.

Landsbankinn er með 21,74%  hlutdeild skuldabréfaviðskipta á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á síðasta ári var hann með 23,36% og þá var hann einnig stærstur. Á hlutabréfamarkaði er Íslandsbanki með 27,53% markaðarins samanborið við 25,99% á síðasta ári og tekur hann efsta sætið af Landsbankanum.

Straumur fjárfestingarbanki tekur mikið stökk upp á við í hlutdeild skuldabréfaviðskipta og bætir við sig 4,3% og fer úr 10,84% í 15,14% á milli ára. MP Banki eykur við sig hlutdeild í hlutabréfaviðskiptum um 3,14% á milli ára, en Landsbankinn missir 8,47% hlutdeild á markaðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×