Viðskipti innlent

Kerecis hlýtur hvatningarverðlaun LÍÚ

Mikil eftirspurn hefur verið eftir vörum Kerecis.
Mikil eftirspurn hefur verið eftir vörum Kerecis.
Fyrirtækið Kerecis hlýtir hvatningarverðlaun LÍÚ árið 2013. Kerecis er framsækið nýsköpunarfyrirtæki á Ísafirði sem hefur þróað einstakar heilbrigðisvörur úr þorskroði. Kerecis vinnur þannig verðmæti úr afurð sem talin var úrgangur og er frábært dæmi um þá vaxtarmöguleika sem íslenskur sjávarútvegur býr yfir, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Kerecis er í farabroddi í heiminum í hagnýtingu á omega 3 olíu við framleiðslu á húðkremum og fékk nýverið staðfest einkaleyfi í Bandaríkjunum á aðferð sinni. Stærsta verkefni Kerecis er framleiðsla og markaðssetning á stoðefninu MariGen úr þorskroði, sem notað er til að græða þrálát sár.  

Hröð útbreiðsla sykursýki í þróuðum samfélögum hefur gert skilvirka sárameðferð enn mikilvægari. Sem dæmi um þörf á vörum á borð við þær sem Kerecis framleiðir má nefna að á ári hverju þarf að aflima um 100 þúsund Bandaríkjamenn vegna þrálátra sára og er stærstur hluti þess vegna sykursýki.

Tæknin og framleiðslan

Kerecis fær roð af eldisþorski í Ísafjarðardjúpi frá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru og Klofningi. Við meðhöndlun Kerecis í verksmiðjunni á Ísafirði eru allar frumur og ofnæmisvaldar fjarlægðir úr roðinu. Þá stendur eftir roðbútur sem samanstendur af próteingrind og Omega 3 olíum. Roðbútarnir eru síðan skornir í búta, sem lagðir eru í vatn fyrir notkun. Efninu er því næst komið fyrir í sárinu sem síðan er lokað með venjulegum sáraumbúðum. Roðbúturinn virkar eins og svampur og heilbrigðar frumur líkamans leita skjóls í stoðgrindinni á meðan þær græða sárið. Úr hverju þorskroði  fást átta til tíu bútar af þessu tagi.

Stofnendur Kerecis eru Guðmundur Fertram Sigurjónsson, læknarnir Baldur Tumi Baldursson og Hilmar Kjartansson og Ernest Kenney, lögfræðingur í einkaleyfismálum. Guðmundur er jafnframt starfandi stjórnarformaður Kerecis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×