Viðskipti innlent

Vextir á Íslandi með þeim hæstu í þróuðum hagkerfum

Vextir á Íslandi, hvort sem um skammtíma- eða langtímavexti er að ræða eru með þeim hæstu í þróuðum hagkerfum heimsins. Talið er að afnám gjaldeyrishaftanna muni auka þennan vaxtamun enn frekar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ekki einungis skammtímavextir séu háir á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Langtímavextir eru hér einnig með því hæsta sem gerist í þróuðum hagkerfum, og mun hærri en í nágrannalöndum okkar.

Sé tekið dæmi af 10 ára vöxtum ríkistryggðra bréfa eru slíkir vextir nú 6,8% á Íslandi. Í Bandaríkjunum eru þeir 1,9%, í Bretlandi 2,1%, í Þýskalandi 1,6% og á bilinu 1,6 til 2,3% á hinum Norðurlöndunum.

Á Írlandi, sem hefur líkt og Ísland glímt við eftirköst bankakreppu og stórauknar ríkisskuldir, eru svo þessir vextir 4,3%. Nafnvaxtamunur við helstu viðskiptalönd er á bilinu 4,5% - 5,2%. Er þá Japan undanskilið, þar sem vextir eru afar lágir líkt og fyrri daginn og vaxtamunurinn því enn meiri.

„Flestir ganga út frá því að vextir á Íslandi muni hækka við afnám gjaldeyrishaftanna, og margt bendir til þess að höftin þrýsti niður langtímavöxtum á markaði þessa dagana vegna þess hversu þau takmarka fjárfestingakosti innlendra fjármagnseigenda," segir í Morgunkorninu.

„Það er hins vegar umhugsunarvert hversu langtíma vaxtamunur er þó mikill gagnvart útlöndum við þessar kringumstæður. Eru því takmörk sett hversu mikill sá vaxtamunur getur orðið til lengri tíma litið, a.m.k. ef fjármagnsflutningar verða að mestu frjálsir í framtíðinni og hagkerfið vex ekki til muna hraðar en gengur og gerist annars staðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×