Handbolti

HM 2013: Aron er varnarbuff

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Aron Pálmarsson er varnarbuff að mati Björgvins Gústavssonar.
Aron Pálmarsson er varnarbuff að mati Björgvins Gústavssonar. Vilhelm.
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik, er bjartsýnn á að íslenska liðið nái að sýna hvað í því býr á HM á Spáni. Fyrsti leikur Íslands er í dag gegn Rússum og þrátt fyrir að mótherjarnir séu gríðarlega sterkir er Björgvin á þeirri skoðun að Ísland eigi góða möguleika.

„Við erum allir klárir á réttum tíma, ég hef verið að væla aðeins í haust vegna veikinda, en það er búið. Við værum ekki hérna á þessum stað ef það væri ekki raunin. Aron (Rafn Eðvarsson) hefur einnig glímt veið veikindi en þetta er allt saman búið og við erum hættir að tala um þessa hluti," sagði Björgvin og glotti.

„Keppnin er núna að byrja og það ríkir spenna og tilhlökkun í hópnum. Enda erum við búnir að bíða lengi eftir því að þessi keppni hefjist. Þetta er svona svipað og fyrir lítil börn að bíða eftir jólunum, stórmótin eru þannig fyrir okkur handboltamennina.

Leikurinn gegn Rússum er algjör lykilleikur varðandi framhaldið. Við eigum alveg möguleika gegn Rússum, alveg klárlega, þeir eru með marga nýja leikmenn og margt nýtt í gangi hjá þeim. Það er líka þannig hjá okkur og ég hlakka til að takast á við Rússa og þetta mót í heild sinni."

Björgvin dregur ekkert úr því að það vanti marga góða leikmenn í íslenska landsliðsins og þar ber hæst fjarvera „varnarlínunnar" Arnórs Atlasonar, Alexanders Peterssonar og Ingimundar Ingimundarsonar.

„Þetta eru stór skörð sem þarf að fylla, en við erum með leikmenn sem geta alveg fyllt í þau. Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson eru hrikalega góðir varnarmenn og þeir stíga bara upp í staðinn. Aron (Pálmarsson) er einnig hörkugóður í vörn, hann er svona „buff". Við erum með gott lið og getum alveg strítt öllum liðum á þessu móti. Baráttan og krafturinn er okkar einkennismerki og við munum aldrei tapa því," sagði Björgvin Gústavsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×