Viðskipti innlent

Íslendingar ganga á sparifé sitt í miklum mæli

Vísbendingar eru um að Íslendingar hafi gengið á sparifé sitt í meiri mæli undanfarna tvo mánuði en verið hefur frá hruninu haustið 2008.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem byggir sína umfjöllun á nýjum tölum frá Seðlabankanum. Þar segir að innistæður heimilanna í bönkunum hafi lækkað um tæplega 6 milljarða króna í síðasta mánuði og komi það ofan í 5 milljarða lækkun í desember s.l.

Innlánin í heild nemi nú 594 milljörðum króna og hafi ekki verið lægri frá hruninu haustið 2008. Greiningin segir að leiða megi líkur að því að sparifé þetta hafi leitað í einhverjum mæli í betri ávöxtun eins og á hlutabréfamarkaðinum. Sá hluti sparnaðar heimilanna, þ.e. hlutabréfakaup, hvarf með öllu í hruninu.

Síðan segir að vel sé hugsanlegt að sparnaðurinn hafi farið annað eins og í að fjármagna almenna neyslu heimilana. Hægt hefur á vexti kaupmáttar launa undanfarið og ekki loku fyrir það skotið að heimilin hafi notað sparnaðinn til að brúa bilið.

Það væri ekki nýtt af nálinni en telja má fullvíst að stór hluti þeirra ríflega 160 milljarða kr. sem innlánin hafa minnkað s.l. fjögur ár hafi farið í að fjármagna neyslu heimilanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×