Viðskipti innlent

Valitor fær 500 milljóna króna sekt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Viðar Þorkelsson forstjóri Valitors.
Viðar Þorkelsson forstjóri Valitors.
Samkeppniseftirlitið lagði í dag 500 milljóna króna sekt á Valitor fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, er komist að þeirri niðurstöðu að Valitor hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á markaði fyrir færsluhirðingu. Einnig braut Valitor gegn skilyrðum sem fyrirtækið hafði skuldbundið sig til þess að virða.

Mál þetta varðar markaðinn fyrir færsluhirðingu, en það er þjónusta við söluaðila, til dæmis verslanir, með því að veita þeim heimild til að taka við greiðslum með greiðslukortum, taka við færslum þeirra og greiða þeim út þegar korthafar greiða reikninga sína. Valitor er markaðsráðandi á þessum markaði og einnig starfa á markaðnum Borgun hf. og Kortaþjónustan.

Samkeppniseftirlitið segir að Valitor hafi gengist undir sátt Í lok árs 2007 og Valitor hafi meðal annars viðurkennt víðtæk brot á samkeppnislögum og samþykkt að greiða stjórnvaldssekt sem nam 385 milljónum króna. Einnig féllst Valitor á að hlíta skilyrðum sem ætlað var meðal annars að koma í veg fyrir að fyrirtækið myndi á ný misnota markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem ætlað var að valda keppinauti samkeppnislegu tjóni. Lauk þessu máli endanlega í upphafi árs 2008.

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar kæru Borgunar og nokkrar ábendingar vegna háttsemi Valitors á markaði fyrir færsluhirðingu. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt er í dag kemur fram Valitor hafi brotið gegn tveimur skilyrðum sem félagið hafði samþykkt að hlíta í sáttinni frá 2007. Í því fólst m.a. að Valitor misnotaði trúnaðarupplýsingar um keppinauta sína í færsluhirðingu sem félagið hafði aðgang að vegna stöðu sinnar í útgáfu VISA greiðslukorta hér á landi. Segir Samkeppniseftirlitð að þessi hafi verið viðbrögð við alvarlegum brotum Valitors og því sett til að vinna gegn frekari brotum fyrirtækisins. Það sé í eðli sínu afar alvarlegt að fyrirtæki brjóti skilyrði af þessum toga sem það hefur skuldbundið sig til þess að virða.

Í yfirlýsingu frá Valitor er ásökunum Samkeppniseftirlitsins hafnað. Þá segir að Samkeppniseftirlitið sé ekki óskeikult í sínum niðurstöðum. Þannig hafi Valitor í tvígang þurft að leita á náðir dómstóla í tengslum við þetta mál og í bæði skiptin hafi Hæstiréttur úrskurðað Valitor í vil.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×