Handbolti

Pólverjar með sigurmark á síðustu sekúndunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Robert Orzechowski tryggði Pólverjum 25-24 sigur á Serbum á HM í handbolta í kvöld þegar hann skoraði sigurmarkið sekúndu fyrir leikslok. Pólverjar voru fjórum mörkum undir þegar aðeins 17 mínútur voru eftir af leiknum en áttu frábæran endasprett.

Pólverjar komust með þessu upp fyrir Serba og upp í annað sætið en Serbía var búið að vinna fyrstu þrjá leiki sína í mótinu. Serbar og Slóvenar mætast á morgun og Serbía á enn möguleika á efsta sætinu í riðlinum þrátt fyrir þetta tap. Slóvenar hafa unnið fjóra fyrstu leiki sína og nægir jafntefli.

Bartosz Jurecki skoraði 7 mörk fyrir Pólverja en sigurmark Robert Orzechowski var hans fimmta í leiknum. Momir Ilic var langmarkahæstur hjá Serbum með níu mörk og Darko Stanic varði 18 skot í markinu.

Serbar komust í 3-1 í upphafi leiks og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik en leiddu síðan með tveimur mörkum við lok hans, 13-11.

Serbneska liðið var síðan fjórum mörkum yfir, 20-16, þegar 17 mínútur voru til leiksloka. Pólverjar náði þá frábærum kafla, unnu næstu átta mínútur 6-1 og komust yfir, 22-21. Lokamínúturnar voru síðan æsispennandi en Pólverjum tókst að skora sigurmarkið og fögnuðu sigrinum gríðarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×