Viðskipti innlent

Biskupssonur með stangveiðidellu

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Sigurður Hannesson Sigurður stefndi lengi að því að verða fræðimaður og fór því í doktorsnám en endaði í fjármálageiranum.
Fréttablaðið/Valli
Sigurður Hannesson Sigurður stefndi lengi að því að verða fræðimaður og fór því í doktorsnám en endaði í fjármálageiranum. Fréttablaðið/Valli

Stærðfræðingurinn Sigurður Hannesson hefur verið áberandi í þjóðmálaumræðu síðustu misseri.

Hann var einn af stofnendum InDefence-hópsins og hefur þar að auki verið einn helsti ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra.

Sigurður starfar sem framkvæmdastjóri eignastýringar MP banka en utan vinnu stundar hann stangveiði.

„Ég er stærðfræðingur að mennt, kláraði grunnám hér heima en fór að því loknu beint til Oxford í Bretlandi þar sem ég stundaði doktorsnám. Framan af hafði ég áhuga á að gerast fræðimaður en áttaði mig síðar á því að það átti kannski ekki við mig. Þegar ég kláraði doktorsnámið árið 2007 var ég því farinn að líta í kringum mig og hafði myndað með mér áhuga á fjármálageiranum,“ segir Sigurður sem var ráðinn til Straums vorið 2007.

Sigurður segir að hann hafi náð góðum tveimur mánuðum af góðærinu en síðan hafi farið að síga á ógæfuhliðina. „Þetta var þó mjög forvitnilegur tími og þarna á einu ári öðlaðist maður margra ára reynslu eins og einhver sagði.“

Um mitt ár 2010 var Sigurður ráðinn framkvæmdastjóri Júpíters, rekstrarfélags verðbréfasjóða í eigu MP banka, og stóð í uppbyggingu þess félags þar til honum var boðið að gerast framkvæmdastjóri eignastýringar MP banka.

Við því starfi tók hann í janúar. Spurður um sín helstu áhugamál svarar Sigurður: „Stangveiði er aðaláhugamálið. Ég veiddi maríulaxinn á tvítugsafmælinu og hef síðan reynt að komast í veiði nokkrum sinnum á sumri. Þar fyrir utan hef ég verið leiðsögumaður í Haffjarðará sem hefur veitt mér nýja sýn á þetta sport.“

Þá segist Sigurður einnig njóta þess að taka þátt í félagsmálum en hann er varamaður í sóknarnefnd Dómkirkjunnar. Þá var hann einn af stofnendum InDefence-hópsins og hefur tekið þátt í starfi Framsóknarflokksins eftir að Sigmundur Davíð, vinur Sigurðar, varð formaður flokksins.

„Við Sigmundur höfum verið vinir síðan við kynntumst úti í Oxford. Við erum báðir hugsjónamenn og því lágu leiðir okkar saman aftur í InDefence og svo í pólitíkinni,“ segir Sigurður sem segist ánægður í sínu starfi þegar hann er spurður hvort frekari þátttaka í þjóðmálunum heilli.

Sigurður er giftur Gunnhildi Ástu Guðmundsdóttur og eru þau búsett í vesturbæ Reykjavíkur. Sigurður bjó þar einnig sín fyrstu ár en fluttist nokkuð um landið á æskuárunum og bjó meðal annars á Hvanneyri og í Bolungarvík.

Ástæðan er sú að móðir Sigurðar, Agnes M. Sigurðardóttir, sem nú er orðinn biskup þjóðkirkjunnar, starfaði þar sem prestur.

Strangheiðarlegur..
Ragnar Páll Dyer

„Ég kynntist Sigurði fyrir sex árum hjá Straumi fjárfestingabanka. Mér varð strax ljóst að hann myndi ná langt enda strangheiðarlegur og framkvæmir aldrei að vanhugsuðu máli. Hann er mjög fylginn sér og gagnrýninn en hins vegar alltaf tilbúinn til að setjast niður og hlusta á mótrök,“ segir Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri Júpíters.

..og hamhleypa til verka
Benedikt Gíslason

„Siggi er bráðgreindur og ansi ­fljótur að sjá kjarnann í þeim málum sem hann kemur nálægt. Hann er skiljanlega talnagleggri en flestir en hefur einnig einstakt lag á að setja tölur í samhengi við hluti og draga af þeim ályktanir sem reynast oftar en ekki réttar. Fylginn sér og hreinskiptinn," segir Benedikt Gíslason, framkvæmdastjóri 

fjárfestingarbankasviðs MP banka.

„Hann er hamhleypa til verka og vinnur jafnan hraðar en samstarfsmenn og hefur af þeim ástæðum stundum takmarkaðan skilning á hægagangi sem sumir hafa kosið að túlka sem neikvæðan þátt í fari hans. Það er alltaf stutt í húmorinn hjá honum, hann hefur einstakt lag á að segja góðar sögur og leggur sig fram við að þefa uppi nýjar sögur og leggja á minnið sem hann setur svo fram á hárréttu augnabliki í góðra vina hópi. Mikil fluguveiðimaður og með þroskaðan tónlistarsmekk þrátt fyrir ungan aldur,“ bætir Benedikt við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×