Innlent

Kapelluklukkan fannst í frystihúsi

Svavar Hávarðsson skrifar
Myndin er tekin árið 1911 af kapellualtarinu á Fáskrúðsfirði. Líkneskin tvö standa nú í Landakotskirkju. Afsteypur hafa verið gerðar og munu standa á upprunalegum stað í kapellunni endurgerðri eystra.
Myndin er tekin árið 1911 af kapellualtarinu á Fáskrúðsfirði. Líkneskin tvö standa nú í Landakotskirkju. Afsteypur hafa verið gerðar og munu standa á upprunalegum stað í kapellunni endurgerðri eystra. mynd/ljósmyndasafn reykjavíkur
„Það var ekki á elleftu stundu, heldur þeirri tólftu sem ráðist var í að bjarga spítalanum. Ástandið á honum þegar hafist var handa var með þeim hætti,“ segir Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, en Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði verður tekinn í notkun í vor. Fosshótel hafa tekið að sér að reka hótel í spítalanum sem nú er nærri því fullbókað fyrir sumarið.

Minjavernd fór að horfa til þess árið 2006 að endurbyggja spítalann. Áður hafði hópur áhugafólks á Fáskrúðsfirði bundist samtökum og leitað leiða til að endurbyggja húsið. Töluverður áhugi var líka hjá Frökkum, læknasamtökum og öðrum aðilum, m.a. í vinabæ Fáskrúðsfirðinga – Gravelines í Frakklandi.

Húsið var svo gott sem ónýtt þar sem það stóð á Hafnarnesi, eyðibyggð austarlega á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar.mynd/þorsteinn
Hugsunin af hálfu Minjaverndar var fyrst sú að endurbyggja húsið þar sem það stóð þá úti í Hafnarnesi. Síðar var ákveðið að flytja húsið á þann stað þar sem spítalinn hefur nú verið endurbyggður, neðan Hafnargötu á Fáskrúðsfirði. Enn fremur var ákveðið að endurgera sjúkraskýlið og líkhúsið auk þess sem gamla kapellan verður endurbyggð sem kapella og nýtt sem slík. 

Þorsteinn segir að leitað hafi verið að gömlum munum sem tilheyrðu kapellunni, sem bar meiri árangur en menn þorðu að vona. 

„Gamla klukkan fannst fljótlega, en hún hafði verið í höndum áhugamanns á Fáskrúðsfirði um húsverndun og sögu um alllangt skeið. Hann fann klukkuna í strigapoka uppi á lofti í gömlu frystihúsi sem var rifið fyrir áratugum. Hún verður sett á sinn stað í nýjan klukknaturn,“ segir Þorsteinn.

Myndin er tekin 11. desember af húsinu nær fullbyggðu á sínum stað neðan Hafnargötu. Þar mun Fosshótel reka glæsilegt hótel.
Fleira kom til því á gömlum myndum innan úr kapellunni sjást styttur af dýrlingum, sem Minjavernd hóf leit að í samstarfi við kaþólska söfnuðinn í Reykjavík [sjá til hliðar]. Kom upp úr dúrnum að þessar sömu styttur höfðu verið fluttar suður, en kapellan var afhelguð 1929 sama ár og Landakotskirkja, eða Kristskirkja, var í byggingu. „Við fórum með þessar myndir á fund kaþólikka hér í bænum og þá kom í ljós að dýrlingamyndirnar standa uppi í Landakoti í dag og eru í miklum metum. Þeir hafa gert afsteypur af styttunum tveimur sem séra Jakob Rolland fór með austur, og eru geymdar hjá Pétri, Davíð og Pétri, munkum af reglu hettumunka á Kollaleiru í Reyðarfirði,“ segir Þorsteinn. „Gamla harmoníið fannst svo á dögunum í geymslu kaþólska safnaðarins og fer austur og þjónar sem hljóðfæri kapellunnar.“

Minjavernd hóf að huga að endurgerð hússins árið 2006, og teikningar sýndu að möguleikarnir voru ótæmandi.mynd/LáraBjörns


Frá niðurlægingu til bjartrar framtíðar


  • Undir aldamótin 1900 byggðu Frakkar þrjá spítala á Íslandi, á Fáskrúðsfirði, í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Að Búðum á Fáskrúðsfirði reis Sjúkraskýli 1896, síðan Kapella, spítalinn 1904, síðan Líkhús og loks Læknishús 1907. 
  • Kirkjugarður var staðsettur utan við þorpið og þar er vitað um 49 grafir. Spítalinn var fyrsta sjúkrahús reist á Íslandi og hafði ýmsar tækninýjungar sem fá hús höfðu á Íslandi. Vatn var rennandi í krana, vatnsklósett og frárennsli, rafstöð var í kjallara, apótek, skurðstofa og sjúkraherbergi.
  • Sjúkraskýlið stendur á sínum upphaflega stað, er nú íbúðarhús og heitir Grund. Kapellan var afhelguð 1923, flutt upp í þorpið, gerð að tvíbýlishúsi og síðar rafmagnsverkstæði og geymslu. Líkhúsið var rifið. 
  • Læknishúsið var orðið mjög hrörlegt þegar það var gert upp fyrir bæjarskrifstofur Fáskrúðsfjarðar, en stóð síðan aftur autt eftir sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð. 
  • Franski spítalinn var um tíma notaður sem skóli að Búðum, en tekinn niður 1939 fjöl fyrir fjöl og efni hans flutt sjóleiðina út á Hafnarnes. Þar var hann endurreistur sem fjölbýlishús með 5 íbúðum og skóla. Hann var í notkun þar rétt fram yfir 1960 en fór þá í eyði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×