Viðskipti innlent

Kaup fjárfestingarfélaga á íbúðum hafa ekki aukist

Nýjar tölur sýna að fjárfestingafélög eru ekki að kaupa íbúðir í meiri mæli en verið hefur á undanförnum árum og þar með mynda bólu á fasteignamarkaðinum.

Þessar tölur sem Þjóðskrá Íslands hefur sett fram sýna að langstærsti hluti fasteignaviðskipa felst í að einn einstaklingur selur öðrum íbúð sína. Þetta á við um 75% allra viðskipta með íbúðahúsnæði. Í aðeins 6% tilvika var um að ræða að einstaklingur seldi fyrirtæki og í aðeins 4% var um að ræða að fyrirtæki seldi öðru fyrirtæki íbúðir.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessar tölur segja því þá sögu að eðli íbúðamarkaðarins hefur ekki breyst mikið undanfarin sjö ár.. Eftir sem áður á langstærstur hluti viðskipta á íbúðamarkaði sér stað á milli tveggja einstaklinga, og hlutfall fyrirtækja á þessum markaði hefur haldist nokkuð stöðugt.

Því er fátt sem bendir til þess að fjárfestingafélög séu nú í stórauknum mæli að kaupa íbúðir vegna skorts á öðrum fjárfestingakostum, sem gæti orðið til þess að ýta undir bólumyndun á íbúðamarkaði, að því er segir í Morgunkorninu.

Íbúðaverð hækkaði um 4,6% á landinu öllu á síðasta ári að nafnvirði, sem þýðir 0,5% hækkun að raunvirði. Íbúðaverð er enn 35% lægra að raunvirði en þegar það fór hæst í árslok 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×