Erlent

Átök harðna í Taílandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vel stæðir íbúar höfuðborgarinnar virðast engan veginn geta sætt sig við stjórnina.
Vel stæðir íbúar höfuðborgarinnar virðast engan veginn geta sætt sig við stjórnina. Mynd/EPA
Ólgan í Taílandi undanfarna daga á sér langa sögu, en átökin snúast um það hvort lýðræðislega kjörin stjórn Yinglucks Shinawatra forsætisráðherra hafi rétt til þess að fara með völdin.

Hin gamla valdaklíka auðugra höfuðborgarbúa, sem hafði stjórnað landinu áratugum saman, virðist engan veginn geta sætt sig við að Yingluck, og þar áður Thaksin bróðir hennar, hafi verið kosin til valda fyrir tveimur árum með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, sem flest virðast hafa komið frá fátækari landsmönnum utan höfuðborgarinnar, Bangkok.

Yingluck, rétt eins og Thaksin, komst til valda með loforðum til almennings, sem gamla valdaklíkan segir lýðskrum eitt. Thaksin var sakaður um spillingu og hlaut dóm fyrir, og Yingluck er sökuð um að láta bróður sinn í reynd stjórna landinu úr útlegð.

Suthep Thaugsuban, stjórnarandstæðingurinn sem er í forystu mótmælanna undanfarið, segist ekki ætla að linna látum fyrr en stjórnin hefur hrakist frá völdum.

Hann vill þó ekki láta efna til nýrra kosninga, enda engan veginn hægt að reikna með því að Yingluck yrði ekki kosin aftur, heldur vill hann að völdin fari til sérskipaðs ráðs, sem óljóst er hvaða umboð á að hafa til að stjórna.

Yingluck segist ekki sjá hvernig hægt sé að verða við kröfum mótmælenda án þess að brjóta um leið gegn stjórnarskrá landsins.

Herinn hefur til þessa kosið að halda sig til hlés í átökunum, en fyrir sjö árum tók hann sér stöðu með höfuðborgarklíkunni og steypti stjórn Thaksins af stóli.

Herinn hafði þá margsinnis í sögu landsins gripið inn í pólitísk átök með því að gera stjórnarbyltingu. Alls hefur herinn í Taílandi átján sinnum steypt stjórn landsins af stóli, eða reynt það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×