Viðskipti innlent

Hagvöxtur er umfram spár

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynnti ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta stýrivexti á kynningarfundi í húsakynnum Seðlabanka Íslands í gær.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynnti ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta stýrivexti á kynningarfundi í húsakynnum Seðlabanka Íslands í gær. Fréttablaðið/Daníel
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans eru horfur á að hagvöxtur í ár verði nokkru meiri en bankinn spáði í ágúst, eða 2,3 prósent. Næstu tvö ár gerir bankinn engu að síður ráð fyrir svipuðum vexti og áður hafði verið spáð.

Kynnt var í gær ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum bankans enn óbreyttum og efnahagsritið Peningamál með nýrri þjóðhagsspá.

Vöxtum Seðlabankans var síðast breytt í nóvember í fyrra. „Er þetta lengsta samfellda tímabil óbreyttra stýrivaxta bankans síðan 2004,“ segir í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka.

Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar kemur fram að verðbólguhorfur hafi batnað nokkuð frá síðustu spá bankans. „Eftir að hafa aukist nokkuð á þriðja fjórðungi ársins hefur verðbólga minnkað á ný,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri við kynningu á ákvörðun peningastefnunefndar í gær.

„Samkvæmt spá bankans eru horfur á hægfara hjöðnun verðbólgu á næstu misserum. Hún verður minni á næstunni en áður var reiknað með en verðbólguhorfur til ársins 2016 eru í stórum dráttum svipaðar.“ Már segir ráð gert fyrir að verðbólga hnígi að markmiði undir lok árs 2015.

Hjöðnun verðbólgunnar sagði Már auðvitað mjög hægfara og um margt óásættanlega hæga, auk þess sem hún væri næm fyrir þróun gengis og launa á næstu misserum.

„Hafa verður í huga að í spánni er gert ráð fyrir því að launahækkanir verði nokkuð umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði,“ sagði Már, en í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að verði launhækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við spána þá sé líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu.

„Launahækkanir umfram það auka líkur á vaxtahækkunum enn frekar,“ sagði Már, en áréttaði um leið að launahækkanir sem samrýmdust verðbólgumarkmiði hefðu þau áhrif að verðbólga hjaðnaði hraðar en spá bankans gerir ráð fyrir og vextir gætu þar af leiðandi orðið lægri en ella.

Þá hafi áhrif stefnan í ríkisfjármálum. „Mikilvægt er að eftir meðferð Alþingis á frumvarpi til fjárlaga verði aðhald í ríkisfjármálum að minnsta kosti jafn mikið og boðað er í frumvarpinu.“

Auk óvissu vegna komandi kjarasamninga, nefndi Már að viðskiptakjör Íslands hefðu versnað á undanförnum misserum og það rýrt viðskiptaafgang og sett þrýsting á gengi krónunnar. Þá sé enn óvissa um hvaða áhrif þung greiðslubyrði erlendra lána, uppgjöra búa föllnu bankanna og losun fjármagnshafta hafi á gengi krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×