Viðskipti innlent

Byggðastofnun hefur selt 46 eignir frá 2009

Þorgils Jónsson skrifar


Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í Austurkjördæmi, lagði í síðustu viku fram fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvort til greina komi að gefa Breiðdalshreppi eign Byggðastofnunar í frystihúsinu á Breiðdalsvík.

Kristján segir í samtali við Fréttablaðið að hugmyndin að þessari fyrirspurn hafi vaknað þegar hann hitti sveitarstjórnarfólk í Breiðdalsvík, en þar hafi þetta meðal annars komið til tals.

„Þeir sýndu okkur þetta stóra hús, en að þeirra mati verður aldrei rekið þarna frystihús aftur. Hreppurinn hefur hins vegar margs konar hugmyndir um hvernig megi nýta þetta hús í öðrum tilgangi, meðal annars með því að skipta því niður. Það er mín skoðun að það geti enginn annar en hreppurinn.“

Kristján segir að hreppurinn hafi ekki fjármagn til þess að kaupa eignina en Byggðastofnun geti með þessu losnað við kostnað af húsinu, meðal annars fasteignagjöld og viðhald.

Svar hefur enn ekki borist frá ráðherra, en Hjalti Árnason, forstöðumaður lögfræðisviðs hjá Byggðastofnun, sagði í samtali við Fréttablaðið að hingað til hafi stofnunin ekki gefið eignir.

„Það hefur komið fyrir að eignir hafi verið settar inn í félög sem hlutafé, meðal annars á Siglufirði og Skagaströnd. Þetta hefur ekki verið gefins, en þó skilað sér í uppbygginu í samfélaginu sem skiptir mestu máli,“ segir hann.

Eins og sakir standa á Byggðastofnun 25 fasteignir um allt land, allt atvinnuhúsnæði utan einnar, sem er svipað og hefur verið síðustu ár, en nokkru meira en var fyrir hrun. Fasteignirnar hefur stofnunin eignast á nauðungarsölu eða við gjaldþrot skuldara og er bókfært virði þessara eigna rúmlega milljarður króna.

Hjalti segir eignirnar hafa verið mislengi í sölu. „Það hefur hægst svolítið á eftir hrun og eignirnar eru stærri og þyngri þannig að þetta hefur verið erfiðara.“

Flestallar eignirnar eru í notkun en Hjalti segir að stefnan sé að reyna að selja eignirnar sem fyrst, en annars að koma þeim í notkun, meðal annars með leigu, sem hafi gengið ágætlega.

Rekstrarkostnaður eignanna, það er heildarkostnaður að frádregnum tekjum, hefur verið að meðaltali 15,9 milljónir króna á ári síðustu fimm ár, en frá byrjun ársins 2009 hefur stofnunin selt samtals 46 eignir fyrir 807 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×