Viðskipti innlent

Tekjuauki nemur 57 prósentum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Actavis áætlar að tekjur fyrir 2013 nemi um 8,6 milljörðum bandaríkjadala og hagnaður á hlut verði 9,26 til 9,39 dalir.
Actavis áætlar að tekjur fyrir 2013 nemi um 8,6 milljörðum bandaríkjadala og hagnaður á hlut verði 9,26 til 9,39 dalir. Fréttablaðið/ÓKÁ
Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, hagnaðist um 65,6 milljónir Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi samkvæmt árshlutauppgjöri sem birt var í Kauphöllinni í New York í gær.

Upphæðin samsvarar 7,9 milljörðum króna. Um er að ræða 14,5 prósenta samdrátt á milli ára, en fyrirtækið hagnaðist um 76,7 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Tekjur félagsins eru í tilkynningu sagðar hafa aukist um 57 prósent og hafi numið 2,01 milljarði dala samanborið við 1,29 milljarða á þriðja fjórðungi 2012.

„Hagnaður á hlut á þriðja ársfjórðungi 2013 jókst um 55 prósent í 2,09 dali samanborið við 1,35 dali á þriðja ársfjórðungi í fyrra.”

Niðurstöðurnar eru sagðar án áhrifa kaupa Actavis á Warner Chilcott fyrsta október síðastliðinn.

Hagnaður án afskrifta (EBITDA) jókst um 61 prósent og nam 489,2 milljónum dala á þriðja fjórðungi samanborið við 304,6 milljónir á sama tíma 2012.

Tekjur Actavis Pharma, sem er samheitalyfjasvið fyrirtækisins (þ.m.t. Medis), jukust um 69 prósent og námu 1,55 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi 2013.

"Fjárfesting í þróun og rannsóknum samheitalyfja á alþjóðavísu nam 111,1 milljón dala. Fyrstu níu mánuði ársins setti félagið 509 vörur á samheitalyfjasviði á markað og sótti um yfir 980 markaðsleyfi um allan heim."

Actavis plc. áætlar að tekjur fyrir árið 2013 nemi um 8,6 milljörðum dala og hagnaður á hlut verði á bilinu 9,26 og 9,39 dalir.

"Þá er áætlað að hagnaður á hlut á árinu 2014 muni verða á bilinu 12,25 og 13,00 dalir sem væri umtalsverð aukning miðað við árið 2013."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×