Viðskipti innlent

Íslandspóstur skýri taprekstur

Óli Kristján Ármannsson og Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Hannes Hannesson framkvæmdastjóri Póstmiðstöðvarinnar
Hannes Hannesson framkvæmdastjóri Póstmiðstöðvarinnar
Tap á samkeppnisrekstri Íslandspósts getur falið í sér niðurgreiðslu frá einkaréttarstarfsemi til samkeppnishlutans, að því er lesa má úr ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

Úttekt sýnir að árið 2011 hafi tap Íslandspósts af samkeppnisrekstri numið tæpum 200 milljónum króna. Ef dreginn er frá kostnaður sem Íslandspóstur reiknar vegna kvaðar um alþjónustu eykst tapið í 500 milljónir. Alþjónusta er kvöð á félagið um þjónustu við landsmenn, eins og póstdreifingu í öll hús.

PFS vill að Pósturinn geri nánari grein fyrir ástæðum taprekstrar í einstökum þjónustuflokkum, svo að unnt sé að meta hvort um niðurgreiðslu sé að ræða eða ekki. Eigi að síður er áréttað að ekki hafi komið fram dæmi um að færsla kostnaðar í bókhaldi félagsins feli í sér „beina niðurgreiðslu einkaréttar á kostnaði vegna samkeppnisrekstrar“.

Hannes Hannesson, framkvæmdastjóri Póstmiðstöðvarinnar, hefur aðra sýn á málið. „Frá mínu sjónarhorni er það alþjónusta Íslandspósts sem greiðir niður samkeppnishlutann í dreifikerfi þeirra,“ segir Hannes sem kveðst telja Íslandspóst í ríkisrekinni samkeppni við einkaaðila.

PFS lagði fyrir Íslandspóst áætlun um það sem þarf að lagfæra og skoða nánar. Helga Sigríður Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandspóst, segir aðgerðaráætlun þegar komna í gang. Hluti hennar sé að skilgreina loks kostnað við alþjónustu, sem líkast til sé umtalsvert meiri en áætlað sé í bókum félagsins.

„Þetta er það sem er að fara með okkur í dag, mjög miklar kröfur um þjónustu án þess að tekjur komi á móti,“ segir Helga Sigríður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×