Innlent

Segir HÍ birta sláandi fáar greinar

Valur Grettisson skrifar
Einar Steingrímsson gagnrýnir fáar birtar greinar.
Einar Steingrímsson gagnrýnir fáar birtar greinar.
„Það liggur í augum uppi að sumir eru ekki að vinna vinnu sína. Það vita allir sem vilja vita og í raun er það opinbert leyndarmál háskólasamfélagsins,“ segir Einar Steingrímsson, stærðfræðikennari í Skotland, en hann tók saman birtar greinar í svokölluðum ISI tímaritum eftir vísindasviðum Háskóla Íslands.

Þar kemur meðal annars fram að aðeins átján greinar frá menntavísindasviði hafa birst í ISI-tímaritum sem Einar segir að séu sláandi fáar.

Tæplega 130 manns vinna á sviðinu, en það gera 0.14 greinar á mann. Til útskýringar þá eru ISI-tímarit þau sem finna má í einum víðtækasta alþjóðlega gagnagrunninum yfir greinar birtar í ritrýndum fræðiritum. Það eru rit sem eru viðurkennd af vísindasamfélaginu.

Háskóli Íslands hefur nú það metnaðarfulla markmið að verða einn af hundrað bestu háskólum heims. Til þess að svo verði, er grundvallaratriði að skólinn fái greinar birtar í ISI-tímaritum.

Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, segi ýmsar ástæður fyrir fáum birtum greinum. Meðal annars birta margir fræðimenn greinar í innlendum blöðum sem eru ekki ISI-tímarit. Eins eru bækur oft afrakstur rannsókna hugvísindasviðs.

„En það eru ákveðnar greinar innan háskólans sem þurfa að birta fleiri greinar,“ segir Halldór sem tekur undir að of fáar greinar séu að birtast.

Helmingur launa starfsmanna skólans er ætlað að fara í rannsóknir. Spurður hvort starfsmenn svíkist um, og sleppi þeim, svarar Halldór að svo sé ekki, það væri þá tekið á því, enda ein af starfsskyldum starfsmanna.

Varðandi birtar greinar bendir Halldór á að hátt hlutfall greina sem eru birtar í isi-tímaritum, birtast í áhrifamestu tímaritunum.

Hér má finna samantekt Einars í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×