Skoðun
Hrafnkell Lárusson sagnfræðingur

Einræðisgælur innan marka lýðræðis

Hrafnkell Lárusson skrifar

Á Íslandi hafa stjórnmálaflokkar sem gæla við einræði með andlýðræðislegum tilburðum og orðræðu ekki náð að skjóta tryggum rótum. Þannig flokkar einkennast jafnan af trú á sterka leiðtoga, þjóðrembu, einangrunarhyggju og andúð á minnihlutahópum og innflytjendum.

Þó leita sumir stjórnmálaleiðtogar með mikinn metnað fyrir eigin frama í að tileinka sér þætti úr framkomu og stjórnunarstíl einræðisherra – þó þeir starfi í lýðræðislegum stjórnmálaflokki. Þannig getur forysta starfandi stjórnmálaflokka sveigst í eina átt í starfi sínu, þó yfirlýst stefna viðkomandi flokks sé önnur. Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir slíkum tilburðum, þar sem breytingar í andlýðræðislega átt gerast jafnan hægt og hljóðlega í lýðræðisríkjum en ekki í stökkum. Nokkur einkenni þessara breytinga verða rakin stuttlega hér.

Þjóðremba birtist m.a. í aukinni notkun ýmissa þjóðernistákna og sameiginlegra minna. Þjóðfáninn er líklega dæmigerðasta táknið sem teflt er fram með þessum hætti, en staðir sem geyma „sameiginlegar“ minningar eru líka nýttir. Vísanir í „glæsta sögu“ þjóðarinnar eða „sameiginlegar þjáningar“ hennar (í ofureinfaldaðri útgáfu) eru líka meðvitað notaðar með sérstakri áherslu á að þá hafi samheldni ríkt, sem skorti í samtímanum.

Í þessari tilbúnu mynd fortíðarinnar gengu allir í takt og þeir sem ekki voru með „okkur“ voru á móti „okkur“. Slík tvíhyggja krefur þá sem á hlýða að gangast inn á hana. Hún dregur einfaldar línur og skilur áheyrendur eftir án valkosta. Því hver vill vera sakaður um að vinna gegn samlöndum sínum? Sérstaklega þegar því er lofað að ávöxtur samheldni í samtíð og framtíð sé útópískt framtíðarríki sem einkennist af stöðugleika og velmegun. Markmið þess háttar orðræðu er að nýta þjóðernistilfinninguna til að styrkja eigin völd.

Sterki leiðtoginn er annað stjórnmálalegt minni sem dregur meiri dám af einræði en lýðræði. Dæmi úr fortíðinni eru nýtt til að sýna fram á mikilvægi sterkra leiðtoga, einhverskonar hálfguða – óskeikulir og ósnertanlegir. Fyrirmyndunum er lýst sem óumdeildum og elskuðum og landsmenn hafi fylgt leiðsögn þeirra möglunarlaust. Speglun slíkra söguskýringa á samtímann gerist svo nokkuð sjálfkrafa og endurómar í kröfunni um samheldni að baki leiðtoganum.

Ímyndarsköpun er reynt að stýra hvort sem það er gert með skipulögðum hætti eða með því að hafa völd yfir fjölmiðlum. Mestumvert er að halda fjarlægð, einkum frá pólitískum andstæðingum. Myndnotkun sem einkennist af uppstillingum á að ýta undir ímyndina um sterka leiðtogann og/eða byggja og viðhalda glansmynd, t.d. með því að tengja sig við eitthvað það sem nýtur vinsælda í samfélaginu eða með beinni upphafningu á eigin persónu. Umræðu er stýrt í far einræðu eða samtals við já-menn. Ágengum spurningum fjölmiðlamanna er mætt með hótfyndni, útúrsnúningum eða með atlögu gegn þeim sem spyr. Reynt er að láta líta út fyrir að spyrillinn gangi erinda annarlegra sjónarmiða.

Þöggun er jafnan skipuleg í eiginlegum einræðisríkjum þar sem fjölmiðlar og stjórn upplýsingaflæðis eru undir hæl yfirvalda. Þannig geta fulltrúar þeirra beitt áróðri til að styrkja eigin valdastöðu sem og skipulagðri þöggun í því skyni að útiloka önnur viðhorf eða óþægileg mál. Algeng tilhneiging er að reyna að útiloka sem flest merki um verk fyrri stjórnvalda (og aðra hugsun en sína eigin) nema í því skyni að gera þau tortryggileg eða háðugleg.

Það eru mörg dæmi úr vestrænum lýðræðisríkjum um stjórnmála- og kaupsýslumenn sem byggja veldi sitt m.a. með ítökum í fjölmiðlum sem beitt er fyrir málstaðinn. Slíkt skarast við þá grunnhugsun lýðræðis að það byggi á óháðri og frjálsri samræðu og skoðanaskiptum. Þögn og þýlyndi fylgismanna þeirra sem ástunda einræðisgælur innan marka lýðræðis er eitt það hættulegasta í þessu sambandi enda þögnin túlkuð sem samþykki og blessun á framferðið.

Ótti og ófagleg stjórnsýsla. Fátt hefur í gegnum tíðina verið meira sameinandi fyrir þjóðir og hópa en sameiginlegur óvinur eða ógn. Freistingin er því mikil fyrir valdamenn með einræðisdrauma að ýta undir ótta við ytri ógn (raunverulega eða tilbúna) en tefla sjálfum sér um leið fram sem varðmanni fjöldans, sem muni verja þá sem sameinist að baki hans. Annað eru svo tilburðir til að sveigja stjórnsýsluna í það far að þjóna valdhöfum fremur en almenningi. Meiru skiptir þá að „rétt“ fólk sé í embættum en að viðkomandi séu hæfir til að valda hlutverkinu. Tökum er náð á lykilstofnunum samfélagsins (t.d. með skipan í embætti) og ekki síður stærstu fjölmiðlum (t.d. þeim sem eru í eigu almennings). Stigveldið er eflt og æðstu ráðamenn neyta aflsmunar gagnvart stofnunum (t.d. ráðherrar gagnvart þingi).

Fulltrúalýðræði með skipulögðum stjórnmálasamtökum opnar hinum almenna borgara möguleika á þátttöku í starfi sem miðar að því að hafa áhrif á stjórnun og stefnumótun samfélagsins. Það fyrirkomulag á að styðja við að ólík sjónarmið nái framgangi og tillit sé tekið til þeirra. Sú andúð og tortryggni gagnvart hefðbundnum stjórnmálaflokkum, sem gætt hefur í umræðunni hér á landi undanfarin misseri, má ekki ganga svo langt að við vörpum lýðræðishefðum fyrir róða fyrir eitthvað sem enginn veit hvað er.

Það er mikilvægt að fólk fylgist með lýðræðinu og hvernig með það er farið. Að búa í opnu og lýðræðislegu samfélagi, þar sem frjáls skoðanaskipti og menningarlegur fjölbreytileiki eru varin, eru ekki sjálfgefin gæði sem viðhalda sér sjálf. Lýðræðið þarf að rækta og það gerist einkum með þátttöku almennings í því, þ.m.t. viðbrögðum við óeðlilegri valdaásælni ráðamanna eða frjálslegri túlkun þeirra á lögum og reglum sjálfum sér í hag. Fylgjumst því af athygli með hvernig ráðamenn fara með orðið, þar birtist hugsun sem iðulega leiðir til aðgerða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Stress

Gunnar Dan Wiium skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.