Innlent

Engin lausn í Lundúnum

Sigurgeir Þorgeirsson fer fyrir samningateymi Íslendinga í makríldeilunni.
Sigurgeir Þorgeirsson fer fyrir samningateymi Íslendinga í makríldeilunni.
Samningaviðræðum í makríldeilunni lauk í Lundúnum í gær án niðurstöðu. Viðræður hófust á miðvikudaginn og stóð til að þær stæðu yfir í þrjá daga. Þeim lauk hins vegar í gær og niðurstaða virðist ekki í augsýn.

Sigurgeir Þorgeirsson aðalsamningamaður Íslands í deilunni vildi ekkert gefa upp um efnisatriði sem varða samkomulag en sagði Íslendinga geta verið hóflega bjartsýna.

„Við höfum sett okkur ákveðin markmið í gegnum allt ferlið. Þessi fundur snerist mikið um vísindaráðgjöf, sameiginlegar rannsóknir og eftirlit. Það voru takmarkaðar umræður um deilingu stofnsins en menn voru sammála um að hittast síðar og ræða það,“ sagði Sigurgeir.

Að sögn Sigurgeirs fóru menn ekki af fundinum í fússi.

„Það er alrangt að þessu hafi lokið illa. Þrír dagar voru fráteknir í viðræðurnar. Svo var ljóst að það þyrfti lengri tíma og ýmislegt þyrfti að skoða betur og því var ákveðið að hittast síðar,“ sagði Sigurgeir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×