Viðskipti innlent

Atvinnuleysi var 3,8 prósent í september

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í atvinnuleit.
Í atvinnuleit.
Skráð atvinnuleysi dróst saman um 0,2 prósentustig milli ágúst og september samkvæmt nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysið var 4,0 prósent í ágúst, en mældist 3,8 prósent í september.

„Í september fækkaði körlum um 171 að meðaltali á atvinnuleysisskrá en konum um 423 og var atvinnuleysið 3,2 prósent meðal karla og 4,4 prósent meðal kvenna,“ segir í umfjöllun Vinnumálastofnunar. „Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 493 á höfuðborgarsvæðinu en um 101 að meðaltali á landsbyggðinni.“

Fram kemur að atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 4,3 prósent á höfuðborgarsvæðinu. „Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 2,8 prósent. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 5,4 prósent. Minnst var atvinnuleysið Norðurlandi vestra, 0,8 prósent.“

Alls voru 6.480 manns skráðir atvinnulausir í lok september, en þeir sem voru atvinnulausir að fullu eru sagðir hafa verið vegar 5.779. „Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 3.491, fækkar um 403 frá ágúst og eru um 54 prósent þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í september.“

Fólk sem hefur verið atvinnulaust í meira en eitt ár samfellt var 1.940 talsins í septemberlok, en 2.072 í ágústlok. Í þeim hópi hafði því fækkað um 132 milli mánaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×