Viðskipti innlent

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka

Haraldur Guðmundsson skrifar
Húsnæðisverð hækkaði um 4,9 prósent á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra.
Fréttablaðið/Vilhelm.
Húsnæðisverð hækkaði um 4,9 prósent á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm.
„Við erum að reikna með því að húsnæðisverð haldi áfram að hækka með svipuðum hætti og það hefur gert,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka. 

Bankinn birti í gær tölur í Morgunkorni sínu sem sýna að húsnæðisverð hér á landi hækkaði um 4,9 prósent á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. 

Ingólfur segir hækkunina meðal annars mega rekja til þess að kaupmáttur hefur vaxið, störfum fjölgað og atvinnuleysi minnkað. 

„Viðsnúningurinn í hagkerfinu sem við fórum að finna fyrir árið 2010 hefur verið að valda þessari hækkun á húsnæðisverði. Þá tók landsframleiðslan við sér og húsnæðisverð fór að hækka að nýju,“ segir hann. 

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, tekur í sama streng og Ingólfur og segir hækkunina aðallega tengjast þróuninni í hagkerfinu. 

„Ég hugsa að við eigum eftir að sjá meiri verðhækkanir á íbúðarhúsnæði á næstu árum og þá auðvitað að einhverju leyti í takt við hagsveifluna sem verður vonandi meiri með auknum hagvexti,“ segir Ari.

Hann bendir einnig á að byggingarkostnaður hefur hækkað á undanförnum árum.

„Hærri byggingarkostnaður þýðir að þegar við förum að selja meira af nýju húsnæði þá verður það dýrara og hefur áhrif á allan markaðinn.“

Þessi þróun á húsnæðisverði hér á landi er önnur en á evru-svæðinu. Samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins var verð á íbúðarhúsnæði 2,2 prósentum lægra á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil árið 2012. 

Á hinum Norðurlöndunum er þróunin svipuð og hér. Húsnæðisverð í Noregi hækkaði um 5,5 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra og um 4,6 prósent í Svíþjóð 

Spurður hvort verðbóla á fasteignamarkaði sé í uppsiglingu segir Ingólfur að það séu engin sýnileg merki um slíkt.

„Raunverðshækkun íbúðahúsnæðis frá árinu 2010, þegar við náðum botninum, er tiltölulega lítil og raunverð íbúðarhúsnæðis í sögulegu ljósi er ekki hátt,“ segir Ingólfur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×