Lífið

Málmhaus forsýnd

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
F.v. Pétur Ben, Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, Ragnar Bragason, Árni Filippusson og Davíð Óskar Ólafsson.
F.v. Pétur Ben, Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, Ragnar Bragason, Árni Filippusson og Davíð Óskar Ólafsson. Mynd / Vilhelm Gunnarsson
Málmhaus var forsýnd í kvöld í Háskólabíó fyrir aðstandendur og boðsgesti en er frumsýnd um allt land á morgun.

Ragnar Bragason, leikstjóri myndarinnar, segir það alltaf taugatrekkjandi að frumsýna fyrir sitt heimafólk.

„Mér líður afskaplega vel. Þótt maður sé búinn að sýna eitthvað erlendis þá þykir manni mest vænt um sinn eigin markað,“ segir Ragnar en myndin var heimsfrumsýnd á Toronto-kvikmyndahátíðinni í september þar sem hún fékk mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda og sýnd fyrir skömmu í Suður-Kóreu.

Þorbjörg Helga í hlutverki sínu í Málmhaus.
„Viðtökurnar úti voru framar öllum vonum. Maður er nú svolítið spilltur þar sem áhorfendurnir á þessum hátíðum eru virkilega áhugasamir og jákvæðir," segir Ragnar.

Ragnar leikstýrir og skrifar einnig handrit Málmhauss og í aðalhlutverkum eru þau Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki, Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðsdóttir í hlutverkum foreldra hennar. 

Pétur Ben semur tónlistina í myndinni og Árni Filippusson og Davíð Óskar Ólafsson eru framleiðendur.

Myndin hefst árið 1970 og hljómsveitin Black Sabbath er búin að gefa út sína fyrstu plötu. Hera býr ásamt foreldrum sínum í sveit þar sem hún og bróðir hennar hafa alist upp við leik og störf í tiltölulega áhyggjulausu umhverfi. Það verður þessari litlu fjölskyldu mikið áfall þegar bróðir Heru deyr og til að takast á við sorgina sökkvir Hera sér í þungarokkið sem bróðir hennar hafði svo miklar mætur á, byrjar að læra á gítar og dreymir um frægð og frama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.