Viðskipti innlent

Vinnustaðir verða líkastir flugstöðvum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sturla Jóhann Hreinsson líkir vinnustað framtíðarinnar við flugstöð þar sem starfsfólk fyrirtækja ferðast inn í fjölbreytt hópastarf.
Sturla Jóhann Hreinsson líkir vinnustað framtíðarinnar við flugstöð þar sem starfsfólk fyrirtækja ferðast inn í fjölbreytt hópastarf. Fréttablaðið/Þorgils
„Vinnustaður framtíðarinnar verður verkefnadrifinn og honum mætti frekar líkja við flugstöð en skrifstofubyggingu,“ segir Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri Landsvirkjunar.

Sturla og aðrir félagar úr Flóru, félagi mannauðsstjóra, standa í dag fyrir ráðstefnu í Hörpu sem fjallar um vinnustað framtíðarinnar út frá ýmsum hliðum.

„Í framtíðinni mun starfsfólk fyrirtækja ferðast inn í fjölbreytt hópastarf, bæði innan hvers fyrirtækis og utan þess, og sinna smærri og stærri verkefnum. Verkefnin verða þá í flestum tilvikum tímabundin og þegar kemur að næsta verkefni verður ekki endilega sami farþegalisti,“ segir Sturla og heldur sig við flugstöðvarlíkinguna.

Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri Landsvirkjunar.
Á ráðstefnunni í dag koma saman innlendir og erlendir fyrirlesarar í þeim tilgangi að draga upp mynd af því hvernig hinn hefðbundni vinnustaður gæti litið út árið 2020. Þar verður að sögn Sturlu leitast við að svara spurningum eins og þeim hvernig byggingarlist geti stutt við mótun fyrirtækjamenningar og hvernig tæknin eigi eftir að breyta vinnuumhverfi fyrirtækja.

„Tölvur og ýmis hugbúnaður eru þegar farin að ráða við einfaldari verkefni sem fólk sinnti áður og af þeim sökum eru þau verkefni sem eftir sitja oft meira krefjandi,“ segir Sturla.

Í því sambandi nefnir Sturla að hann telji að á næstu árum verði gerðar meiri kröfur um félagslega færni og aukna getu starfsfólks til að vinna úr miklu upplýsingamagni.

„Starfsfólk fyrirtækja þarf að geta ráðið við aukið streituálag í umhverfi sem þessu. Stærri fyrirtæki munu að öllum líkindum skera hefðbundna starfsemi sína niður en á sama tíma nýta sér þjónustu smærri og sérhæfðari fyrirtækja,“ segir Sturla.

„Það er fróðlegt að velta þessu fyrir sér því það er ekki langt í árið 2020 og tímabært fyrir þá sem eru að vinna með fólk í fyrirtækjum að huga að því sem er handan við hornið," heldur Sturla áfram. „Komandi ár munu án efa gera nýjar kröfur til stjórnenda jafnt sem starfsfólks og því er skemmtilegt að hugleiða hver þróunin gæti orðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×