Viðskipti innlent

Uppgjörin flutt hingað til lands

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jóhannes Ingi Kolbeinsson er framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.
Jóhannes Ingi Kolbeinsson er framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar. Fréttablaðið/Arnþór
Með því að Kortaþjónustan varð fyrir skömmu fullgildur aðili að alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækjunum VISA Europe og Mastercard International getur fyrirtækið annast bæði uppgjör debet- og kreditkorta hér á Íslandi. Áður fór uppgjör fram í gegnum danska fyrirtækið Teller.

Fram kemur í tilkynningu að Kortaþjónustan hafi samið upp á nýtt við viðskiptavini sína og sinni nú kortauppgjöri í eigin nafni.

„Er nú langstærstur hluti uppgjöranna framkvæmdur beint hér á landi á vegum Kortaþjónustunnar,“ segir þar.

Með þessu fyrirkomulagi segistKortaþjónustan geta veitt viðskiptavinum sínum betri og sveigjanlegri þjónustu en áður, enda fari öll þjónustan fram innan fyrirtækisins.

„Meðal nýjunga er að Kortaþjónustan getur nú boðið viðskiptavinum val milli þess að fá dagleg, vikuleg eða mánaðarleg uppgjör.“

Frá stofnun hefur Kortaþjónustan séð um bæði sölu og þjónustu hér á Íslandi, en stofnaði til samstarfs við Teller varðandi bakvinnsluþjónustu og tengingar við kerfi Visa og Mastercard.

„Með þessu skrefi nú er milliliðum því fækkað, sem leiðir til aukinnar hagkvæmni. Um leið verður Kortaþjónustan enn samkeppnishæfari og mun til að mynda geta þjónustað stærri fyrirtæki en áður á íslenska markaðnum.“

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar, segist stoltur á þessum tímamótum.

„Samstarfið við Teller hefur gengið vel í gegnum tíðina en nú stígum við rökrétt næsta skref í þróun Kortaþjónustunnar og styrkjum stöðu okkar. Það er jákvætt fyrir íslenska greiðslukortamarkaðinn í heild því dæmin sanna að það er nauðsynlegt að hafa sterkan og óháðan þriðja aðila til að samkeppni ríki á þessum markaði,“ er eftir honum haft.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×