Viðskipti innlent

Aukning var mest fyrir vestan

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fyrstu átta mánuði ársins voru gistinætur á hótelum landsins tæp ein og hálf milljón.
Fyrstu átta mánuði ársins voru gistinætur á hótelum landsins tæp ein og hálf milljón. Fréttablaðið/Stefán
Gistinóttum á hótelum í ágúst fjölgaði um fimm prósent milli ára og voru 259.800 samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Tölurnar ná einungis til gististaða sem opnir eru allt árið.

Þar af voru gistinætur erlendra gesta 89 prósent og fjölgaði um fimm prósent milli ára, á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um þrjú prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu voru 151.800 gistinætur á hótelum, sem er tveggja prósenta aukning frá sama mánuði í fyrra.

„Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru 15.100 gistinætur í ágúst sem er um 24 prósenta aukning frá fyrra ári,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Á Suðurnesjum voru 11.700 gistinætur, sem er sagt um 19 prósenta aukning.

Á Norðurlandi voru gistinætur í ágúst 28.000, eða rúmlega átta prósentum fleiri en í fyrra. „Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um ellefu prósent milli ára og voru um 17.000. Gistinætur á hótelum á Suðurlandi voru álíka margar og í ágúst 2012 eða 36.100.“

Fram kemur að gistinóttum á hótelum hafi fjölgaði um fjórtán prósent á fyrstu átta mánuðum ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×