Lífið

Hvaltennur og horn eru uppistaðan

Hannar ú hvaltönnum Fiona Cribben hannar skart úr hvaltönnum og tálgar skópör úr viði.
Hannar ú hvaltönnum Fiona Cribben hannar skart úr hvaltönnum og tálgar skópör úr viði. Fréttablaðið/GVA
„Ég ákvað að flytja hingað til lands árið 2006 með kærastanum mínum, Einari Johnson. Hann hafði þá þýtt hluta bókarinnar Lovestar eftir Andra Snæ og lesið fyrir mig. Það málaði svo góða mynd af því hvernig Íslendingar hugsa,“ segir Fiona Cribben, fata- og skartgripahönnuður.

„Við ætluðum bara að koma í heimsókn, en svo festumst við. Ég elska að vera hérna,“ útskýrir Fiona, en hún leggur nú stund á meistaranám við Listaháskóla Íslands.

Til hliðar rekur hún fata- og skartgripahönnunarfyrirtæki undir nafninu Fiona Cribben.

„Ég byrjaði að vinna hjá Baugi þegar ég kom hingað fyrst, sem verslunarstjóri Top Shop. Svo fór ég að vinna hjá CCP þar sem ég var að hanna fyrir Eve Online og World of Darkness,“ segir Fiona, sem er ættuð frá litlu þorpi á vesturströnd Írlands sem heitir Rathfarnham.

Hún segist lengi hafa látið sig dreyma um að tálga skó úr viði.

„Einn daginn var ég að horfa á sjónvarpið og sá mann sem var að vinna með við, tennur og horn. Ég hringdi í hann og bað hann um að koma með mér í samstarf. Við byrjuðum á því að hreinsa horn og tálga úr þeim alveg fáránlega skrítið skópar,“ útskýrir Fiona.

„Við bjuggum til einhver fimm skópör en sáum þá að ferlið var alltof langt. Þá byrjaði ég að pæla í minni hlutum, eins og skartgripum. Ég sá að við gátum notað hornin og hvaltennur til þess að búa til skartgripina. Svo fékk ég hvaltennur algjörlega á heilann. Hvaltennur eru fjársjóður hafsins, að mínu mati,“ bætir hún við.

Hvaltennurnar sem Fiona notar í hönnun sína segir hún vera úr dýri sem rak á fjöru í Hvalfirði einhverntíman á áttunda áratugnum. „Þannig að mín hönnun er dálítið „pönk“ – ætli það sé ekki anarkistinn í mér,“ segir Fiona að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.