Viðskipti innlent

Líklegt að vextir hækki með launum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri fór yfir ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta stýrirvexti í Seðlabankanum í gærmorgun.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri fór yfir ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta stýrirvexti í Seðlabankanum í gærmorgun. Fréttablaðið/GVA
Verði launahækkanir í komandi kjarasamningum umfram það sem samræmist verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands segir peningastefnunefnd bankans að líklegt sé að nafnvextir bankans hækki að óbreyttu í framhaldinu.

Fram kemur í umfjöllun greiningardeildar Arion banka að Seðlabankinn spái fimm til sex prósenta hækkun nafnlauna, sem sé umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði, jafnvel þótt hækkunin sé undir sögulegri meðalhækkun launa og töluvert undir launahækkunum síðustu tveggja ára.

Á kynningarfundi stýrivaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans í gær áréttaði Már Guðmundsson þó að málið snerist ekki um að taka til baka ávinning launafólks í kjarabaráttu.

„Okkur er gert að beita okkar tjórntækjum til að halda verðbólgu sem næst markmiði,“ sagði Már. Bankinn hefði hins vegar ákveðinn sveigjanleika varðandi hversu hratt sú þróun ætti sér stað. „Við setjum ekki raunhagkerfið á hliðina bara til þess að keyra verðbólguna niður í markmið, hvað sem það kostar.“

Um leið sagði hann fyrir því sögulega reynslu að væru launahækkanir umfram framleiðniaukningu og þá verðbólgumarkmið þá myndið það ekki skila sér að lokum í raunávinningi fyrir fólk.

„Við verðum líka að tala skýrt svo allir aðilar geri sér grein fyrir hvað okkur ber samkvæmt lögum að gera og taki það þá með í reikninginn í sínum eigin ákvörðunum,“ bætti Már við.

Í umfjöllun greiningardeilda bæði Arion og Íslandsbanka er haft orð á því að um töluvert harðari vaxtahækkunartón sé að ræða hjá Seðlabankanum en verið hafi.

Skoðun greiningardeildar Arion banka er að ekki hafi verið jafnlíklegt að vextir hækki á næstu mánuðum „síðan hlé var gert á vaxtahækkunarfasa bankans undir lok síðasta árs“.

Greining Íslandsbanka telur enn að stýrivextir bankans verði óbreyttir út árið, en segir yfirlýsingu peningastefnunefndar benda til þess að stýrivextir verði hækkaðir snemma á næsta ári.

„Reiknum við með tveimur 0,25 prósentustiga hækkunum stýrivaxta á næsta ári.“ Vöxtum var haldið óbreyttum núna í 6,0 prósentum, en færu við slíka hækkun í 6,5 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×