Viðskipti innlent

Nýr stjórnarformaður ÍLS situr í afskriftahópi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skipaði stjórn Íbúðalánasjóðs í síðustu viku. Stjórnarformaðurinn, Ingibjörg Ólöf, hefur setið í sérfræðingahópi sem á að vinna að lækkun á höfuðstóli verðtryggðra húsnæðislána frá því um miðjan ágúst.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skipaði stjórn Íbúðalánasjóðs í síðustu viku. Stjórnarformaðurinn, Ingibjörg Ólöf, hefur setið í sérfræðingahópi sem á að vinna að lækkun á höfuðstóli verðtryggðra húsnæðislána frá því um miðjan ágúst. Fréttablaðið/GVA
Nýr stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, situr einnig í sérfræðingahópi forsætisráðuneytisins sem á að vinna að leiðum til að lækka höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Vinna hópsins á að öllum líkindum eftir að hafa áhrif á framtíðarrekstur Íbúðalánasjóðs, stærsta lánveitanda húsnæðislána á landinu.

Spurð hvort þessi tvö verkefni geti farið saman segir Ingibjörg Ólöf að starf hennar í sérfræðingahópnum eigi ekki að hafa áhrif á starf hennar sem stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs og öfugt.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, alþingismaður og formaður velferðarnefndar Alþingis, er ósammála þessu og segir málið hljóta að leiða til hagsmunaárekstra. 

„Þetta er óheppilegt því stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs á að gæta hagsmuna sjóðsins en hlutverk sérfræðingahópsins er að leita leiða til að skrifa niður lán, þar á meðal lán Íbúðalánasjóðs. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort viðkomandi aðili sé í nefnd ráðherra að vinna að hagsmunum skuldugra heimila eða sjóðsins,“ segir Sigríður. 

Ingibjörg Ólöf segir að hún hafi ekki íhugað að segja sig frá öðru hvoru verkefninu. 

„Við verðum að átta okkur á því að landið er lítið og það eru miklir hagsmunaárekstrar úti um allt en þrátt fyrir það verðum við í sérfræðingahópnum að gæta að almennum innherja- og hæfisreglum. Skuldalækkunin varðar allar fjármálastofnanir í landinu og það hafa fleiri en Íbúðalánasjóður veitt húsnæðislán,“ segir Ingibjörg. Hún bætir því við að ef hæfisreglur vegna sérfræðingahópsins eigi að vera túlkaðar á þann veg að stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs geti ekki setið í hópnum geti enginn sem tengist fjármálageiranum setið í honum.

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem skipaði stjórn Íbúðalánasjóðs í síðustu viku, sagði í skriflegu svari til Fréttablaðsins að hún teldi skipun Ingibjargar til stjórnarformanns ekki fela í sér hagsmunaárekstur vegna starfa hennar í sérfræðingahópnum. Ráðherra sagði að hún: „treysti Ingibjörgu fullkomlega til að sinna störfum sínum af trúfestu og heilindum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×