Viðskipti innlent

Oddviti sakaður um værukærð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sum sveitarfélög í Bretlandi eru illa brennd af viðskiptum við íslenska banka.
Sum sveitarfélög í Bretlandi eru illa brennd af viðskiptum við íslenska banka. Nordicphotos/AFP
Snarpar umræður urðu um endurheimtur úr þrotabúum íslensku bankanna á sveitarstjórnarfundi Wyre Forest í Worcesterskíri á Englandi á miðvikudag.

Samkvæmt því sem fram kemur á fréttavef The Shuttle í Bretlandi deildi Nigel Knowles, fulltrúi Verkamannaflokksins, hart á John Campion, sveitarstjórnarformann og oddvita Íhaldsflokksins.

Sakaði hann Campion um að vera værukær þegar kæmi að að eignum sveitarfélagsins í þrotabúum íslenskra banka.

John Campion sagði þetta af og frá, hann tæki á málinu persónulega ábyrgð.

Í yfirferð oddvitans á stöðu mála kom fram að Wyre Forest hafði fyrir hrun lagt níu milljónir punda (1,7 milljarða króna) inn í banka í íslenskri eigu.

Þrjár milljónir voru lagðar inn í Landsbankann, fimm í Kaupthing Singer & Friedlander og ein í Heritable bankann (sem Landsbankinn átti.)

Þegar hafi verið endurheimtar 6,45 milljónir punda (tæplega 1,3 milljarðar króna) af upphæðinni, eða rétt undir 72 prósentum. Vonir stæðu til að megnið af innstæðum sveitarfélagsins fengjust endurgreiddar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×