Viðskipti innlent

Minni og meðalstór fyrirtæki geti örvað efnahagslífið

Þorgils Jónsson skrifar
Félag atvinnurekenda segir mikið afl mega leysa úr læðingi með því að bæta umhverfi minni og meðalstórra fyrirtækja, til dæmis verslana.
Félag atvinnurekenda segir mikið afl mega leysa úr læðingi með því að bæta umhverfi minni og meðalstórra fyrirtækja, til dæmis verslana. Fréttablaðið/Daníel
Hægt er að hleypa nýju lífi í íslenskt atvinnulíf og skapa að minnsta kosti 4.000 störf hér á landi á næstu árum með markvissum aðgerðum til að bæta umhverfi minni og meðalstórra fyrirtækja. Þetta kemur fram í tillögum sem Félag atvinnurekenda (FA) kynnir í dag, undir yfirskriftinni Falda aflið. Yfir 90 prósent allra fyrirtækja á Íslandi eru með 50 starfsmenn eða færri og teljast því til minni eða meðalstórra fyrirtækja.

Tillögur FA eru í tólf liðum og lúta meðal annars að því að setja eignarhaldi fjármálafyrirtækja í óskyldum rekstri hömlur og að auka heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum, meðal annars verði þeir hvattir til þess að fjárfesta í meðalstórum fyrirtækjum.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri FA, segir í samtali við Fréttablaðið að það séu einna helst úrbætur á sviðum sem tengjast samkeppnismálum sem myndu gagnast smáum og meðalstórum fyrirtækjum fyrst.

„Það verður meðal annars að vera hafið yfir allan vafa að samkeppni sé á jafnréttisgrundvelli og þess vegna viljum við herða að bönkunum.“

Almar undirstrikar einnig að mikilvægt sé að skýra samkeppnisúrræði.

„Þess vegna leggjum við til að Samkeppniseftirlitið birti svokölluð bindandi álit, sem tíðkast bæði í tollinum og hjá skattinum. Það þýðir að minni aðilinn í samkeppni er fljótari að fá viðbrögð frá samkeppnisyfirvöldum um hvort hlutirnir séu í lagi eða ekki og það er alltaf til bóta.“

Þá segir Almar að launakostnaður smærri fyrirtækja sé í eðli sínu hærri en stærri fyrirtækja og því geti tryggingagjaldið verið íþyngjandi.

„Alla vega gæti lækkun á tryggingagjaldi skilað sér í svigrúmi til að ráða fólk, hækka laun eða ráðast í úrbætur eða fjárfestingar. Þarna losnar úr læðingi ákveðinn kraftur. Þetta eru kannski ekki háar tölur á hvert fyrirtæki en ef þúsundir fyrirtækja eru öll að bæta stöðu sína verður til ákveðið hreyfiafl.“

Almar segir FA stefna að því að aðgerðum byggðum á tillögum þeirra verði hrint í framkvæmd fyrir þinglok næsta vor.

„Við teljum að það sé raunhæft og ef marka má nýlegar yfirlýsingar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, meðal annars um einföldun regluverksins getum við ekki verið annað en bjartsýn á að það sé vilji hjá stjórnvöldum til að leggjast á árar með okkur. En tíminn skiptir máli og við verðum að vinna hratt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×