Fastir pennar

Útlendu drápsostarnir

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Fréttablaðið sagði í gær litla frétt af því að Mjólkursamsalan hefði fargað nokkrum tugum kílóa af svissneskum Gruyère-osti, sem fluttur var inn fyrir mistök, í trássi við opinbera reglugerð.

Mistökin voru þau að osturinn er úr ógerilsneyddri mjólk, en ekki gerilsneyddri. Auk þess var hann of ungur; ekki nema þriggja mánaða, en ríkisvaldið telur að Gruyère-ostur verði að vera orðinn sex mánaða til að flytja megi hann inn og leyfa Íslendingum að kaupa hann og leggja sér til munns.

Forstjóri MS sagði í samtali við blaðið að eðlilegt hefði verið að eyða ostinum. Og auðvitað er eðlilegt að fyrirtæki fari eftir lögum og reglum. Það er hins vegar ekkert eðlilegt við reglugerðina sem bannar innflutning á ostum úr ógerilsneyddri mjólk, nema þeir séu þá orðnir svo og svo gamlir.

Reglurnar eru í orði kveðnu settar til að vernda annars vegar búfé fyrir smitsjúkdómum frá útlöndum og hins vegar til að vernda neytendur fyrir hugsanlegum matarsýkingum vegna listeríu. Rökin um dýrasjúkdómana eru ósannfærandi; menn eru lítið í því að fóðra húsdýr á osti sem kostar 9.000 krónur út úr búð. Neytendaverndarrökin eru nærtækari.

En Gruyère-osturinn er lögleg vara í framleiðslulandinu og miklu víðar, til dæmis í Evrópusambandinu öllu. Hann er framleiddur samkvæmt aldalangri hefð og undir ströngu gæðaeftirliti. Það eru engar vísbendingar um að fólk í öðrum Evrópulöndum hrynji niður úr matarsýkingum vegna ostaneyzlu, og því síður að Íslendingar komi fárveikir heim úr fríinu eftir að hafa borðað evrópska osta úr ógerilsneyddri mjólk.

Raunar var ferðamönnum í fyrrasumar leyft að hafa með sér eitt kíló af osti úr hrámjólk til landsins. Ekkert hefur heldur frétzt af ótímabærum dauðsföllum matgæðinga eftir að breytingin var gerð.

Enda er reglugerðin bara yfirskin. Hún er svokölluð tæknileg viðskiptahindrun, hugsuð til að verja íslenzka ostaframleiðslu fyrir erlendri samkeppni. Hún hefur í raun ekkert með heilbrigði manna og skepna að gera.

Þetta heimskulega innflutningsbann hefur þó óvæntar hliðarverkanir. Á meðan stjórnvöld banna innflutning á ostum úr ógerilsneyddri mjólk geta þau ekki orðið við beiðni Beint frá býli, sem eru samtök bænda sem selja heimagerðar afurðir, um að leyfa framleiðslu á ógerilsneyddum, íslenzkum ostum. Samt hefur verið mælt með slíku í tveimur opinberum skýrslum. Samtökin hafa líka réttilega bent á að ekki hefur orðið vart við neinn bráðadauða hjá bændum sem drekka mjólkina sína ógerilsneydda beint úr tankinum, enda hefur hreinlæti við framleiðsluna tekið gífurlegum framförum. Þannig koma þessar vitlausu reglur niður á framþróun í íslenzkum landbúnaði.

Samt eru engar líkur á að þeim verði breytt í bili. Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra, sem gæti beitt sér fyrir breytingu á reglunum, var sem óbreyttur þingmaður ekki hrifinn af því þegar áformað var í fyrra að leyfa ferðamönnum að taka með sér ógerilsneydda osta til landsins. Hann sagði að ráðagerðin væri óskiljanleg, gæti haft „alvarlegar afleiðingar“ og heilt kíló af osti væri „frekar óhóflegt“.

Rúmu ári og einu ráðherraembætti síðar er mjög ólíklegt að hann viðurkenni að hann hafi verið að grínast.






×