Viðskipti innlent

18% lægri laun hjá ríkinu en á almennum markaði

Stígur Helgason skrifar
Árni Stefán Jónsson
Árni Stefán Jónsson
Laun á almennum vinnumarkaði eru um fimmtungi hærri en hjá ríkinu. Þetta kemur fram í tilkynningu um nýja launakönnun SFR, stéttarfélags ríkisstarfsmanna, og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Þar segir að félagsmenn VR séu með tæplega 18 prósentum hærri heildarlaun en félagsmenn SFR sem sinna sambærilegum störfum og 28 prósentum hærri laun en félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Þá kemur fram í könnuninni, sem var gerð í febrúar og mars síðastliðnum, að kynbundinn launamunur mælist sjö prósent hjá félagsmönnum SFR en 9,9 prósent hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Hjá VR var kynbundinn launamunur 9,4 prósent.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir kröfugerð félagsins fyrir komandi kjarasamninga vera tilbúna og að hún verði borin upp til samþykktar í trúnaðarráðinu á morgun.

„Vægi þessa launamunar almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera er alltaf að aukast í okkar kröfugerð,“ segir Árni Stefán. „Við munum horfa til þessa og teljum að það þurfi að taka verulega á þessu.“

Að sama skapi segir Árni að horfa verði til launamunar kynjanna í kjaraviðræðunum, þótt hann hafi reyndar mælst minni hjá SFR nú en oft áður.

Að síðustu nefnir Árni Stefán að í stað þess að einblína á launahækkanir þurfi einnig að horfa til kaupmáttaraukningar, enda hafi launahækkanir lítið að segja ef atvinnulífið heldur áfram að velta þeim beint út í verðlagið. Þetta verði að vinna í samvinnu við stjórnvöld og atvinnulífið.

„Og við munum svo fara fram á að ríkið komi til viðræðna við okkur upp úr miðjum október. Við verðum tilbúin fyrsta október,“ segir Árni.

Ekki standi hins vegar til að gera langa samninga, til þess sé óvissan allt of mikil hvað varðar fyrirhugaða hagræðingu í ríkisrekstrinum. „Menn eru ekki að fara að binda sig í kjarasamninga til þriggja ára við svona aðstæður. Það kemur ekki til greina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×