Lífið

Eigingjarnt að sitja einir að tónleikunum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þeir Baldur Baldursson, Sveinbjörn Pálsson og Símon Guðmundsson stjórna Funkþættinum.
Þeir Baldur Baldursson, Sveinbjörn Pálsson og Símon Guðmundsson stjórna Funkþættinum. Mynd/Brynjar Snær
Funkþátturinn á X-inu stendur fyrir mánaðarlegum tónleikum á Boston á Laugavegi á fimmtudaginn.

„Kvöldin eru alltaf fyrsta fimmtudag hvers mánaðar og eru einnig send út í beinni útsendingu.

„Kvöldin snúast um sýna það besta sem er að eiga sér stað í raftónlist á Íslandi að hverju sinni, að okkar mati“ segir Baldur Baldursson, einn stjórnenda Funkþáttarins.

Ásamt Baldri koma að þættinum þeir Sveinbjörn Pálson og Símon Guðmundsson, betur þekktir sem Don Balli Funk, Terrordisco og Símon Fknhndsm.

„Kvöldin byrjuðu þannig að við vorum með livekvöld einu sinni í mánuði í þættinum. Þá komu hljómsveitir með allar sínar græjur og settu upp eins og þær væru að spila á tónleikastað. Sumir gengu meira að segja svo langt að klæða sig í þau föt sem farið er í þegar spilað er live, þrátt fyrir að við værum bara þrír að horfa. Eftir hartnær ár af þessu uppgötvuðum við að þetta væri bara eigingirni – að við sætum þrír að tónleikum einu sinni í mánuði! Þá var þetta fært á Boston,“ útskýrir Baldur.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga fyrir þessum kvöldum bæði hjá fólki og hljómlistarmönnum,“ segir Baldur jafnframt.

Kvöldið á fimmtudaginn er það fimmta í röðinni og hljómsveitin Sykur kemur til með að spila. Þeir sem hafa spilað áður eru Samaris, Oculus, Hermigervill og Viktor Birgis, svo einhverjir séu nefndir.

„Funkþátturinn er stökkpallur fyrir íslenska raftónlistarmenn til að kynna tónlist sína. Sérstaklega um þessar mundir þegar æ færri staðir eru til staðar fyrir tónlistarfólk að flytja tónlist sína,“ bætir Baldur við.

„Til að mynda hefur hljómsveitin Gus Gus frumflutt síðustu þrjár plötur sínar í þættinum okkar, Retro Stefson hafa frumflutt hjá okkur af sinni tónlist, FM Belfast og fleiri góðir,“ segir Baldur jafnframt.

„Við hvetjum alla raftónlistarmenn sem eru að grúska í bílskúrum, svefnherbergjum eða á kaffihúsum að hafa samband við okkur, það er ótrúlega gaman að fá að vera hluti af slíku og í raun stærsta ástæða þess að við höldum úti þessum þætti,“ bætir Baldur við.

„Við erum samt frekar latir að svara útsendingarsímanum, þannig að Facebook er besta leiðin til að ná sambandi,“ segir Baldur, léttur í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.