Viðskipti innlent

"Gæti sagt að það sé vegna þess að ég elska Ísland"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Tónlistarveitan Spotify, sem er mörgum netverjum að góðu kunn, hefur samið við Símann um dreifingu efnis hér á landi segir Jonathan Forster.
Tónlistarveitan Spotify, sem er mörgum netverjum að góðu kunn, hefur samið við Símann um dreifingu efnis hér á landi segir Jonathan Forster. Mynd/Spotify
„Ég gæti sagt að það sé vegna þess að ég elska Ísland en fyrst og fremst er það vegna þess að mjög margir Íslendingar eru tónlistarunnendur og síðan eru náttúrulega nánast allir með nettengingu,“ segir Jonathan Forster, framkvæmdastjóri Spotify í Evrópu, um innreið félagsins á íslenskan markað í samtali við Fréttablaðið.

„Við teljum að það sé tímabært að Spotify komi til landsins og viljum að Íslendingum standi til boða lögleg, ódýr og hentug leið til að nálgast tónlist á netinu,“ segir Forster.

Eins og kunnugt er hóf Spotify að bjóða upp á þjónustu sína hér á landi í apríl.

Nú hafa Spotify og Síminn hafið samstarf sem hefur það í för með sér að hægt verður að fá aðgang að Spotify í gegnum Símann. Þjónustan verður ókeypis með vissum vörum Símans.

Þúsundir Íslendinga hafa þegar keypt sér aðgang að Spotify en Forster vonast til þess að þjónustan geti hjálpað íslenskum listamönnum við að koma sér á framfæri.

Þá býst hann við að sífellt meiri íslensk tónlist verði aðgengileg eftir því sem fram líða stundir. „Við bætum við 20.000 lögum á dag og þegar við förum á nýja markaði bætist yfirleitt við nýtt efni frá þeim markaði. Þeim mun þekktari sem við verðum á Íslandi eru meiri líkur á að þeir sem gefa út tónlist hefji samstarf við okkur,“ segir Jonathan Forster.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×