Viðskipti innlent

Hyggur á stórsókn þrátt fyrir milljarða tap

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Halldór Jörgensson.
Halldór Jörgensson.
Halldór Jörgensson, fráfarandi framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, er tekinn við sem sölu- og markaðsstjóri Surface-spjaldtölvu Microsoft alls staðar utan Bandaríkjanna. Halldór mun þó starfa áfram hér á landi.

„Allavega um sinn, skattkerfinu til ánægju,“ segir Halldór kíminn. 

Halldór hafði verið í samráði við þjónustuteymi Microsoft. „Ég hafði verið að skipta mér aðeins af þeim og ég fann að þetta var eitthvað sem ég hafði áhuga á. Það þróaðist út í það að ég var að endingu beðinn um að koma í liðið,“ segir Halldór.

Surface-spjaldtölvan var markaðssett á ört stækkandi markað snjalltækja en galt afhroð í samanburði við iPad frá Apple. Nýlega var greint frá 900 milljón dollaratapi Microsoft vegna framleiðslunnar. Tapið samsvarar 109 milljörðum króna.

Halldór segist þó ekki hafa verið fenginn sérstaklega inn til þess að bjarga hlutunum.

„Mín ráðning var gerð áður en þetta tap var gert kunnugt. Þetta breytir engu um hvað við ætlum að gera eða hvernig á að gera þetta. Við þurfum að vinna mjög hratt á ört vaxandi markaði og ég er mjög spenntur að takast á við þetta verkefni. Það er mikill uppbyggingarfasi á fyrirtækinu og við erum ekki að breyta okkar áætlununum neitt vegna þessa. Við ætlum að ná árangri og ná yfirhöndinni á þessum snjalltækjamarkaði,“ segir Halldór. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×