Viðskipti innlent

Neytendaréttur skýr við kaup á ferðum

Nanna Elísabet Jakobsdóttir skrifar
Lög tryggja neytendum vernd við kaup á ferðum segir Steinunn Tryggvadóttir, sölustjóri hjá Úrval Útsýn.
Lög tryggja neytendum vernd við kaup á ferðum segir Steinunn Tryggvadóttir, sölustjóri hjá Úrval Útsýn.
Kaupi manneskja pakkaferð í gegnum ferðaskrifstofu gilda um ferðina lagaákvæði sem tryggja neytendavernd. Skilmálar ferðaskrifstofa eru í samræmi við lögin að sögn Steinunnar Tryggvadóttur, sölustjóra hjá Úrval Útsýn.

Rigningarveður og sólarleysi á höfuðborgarsvæðinu í sumar hafa gert það að verkum að sala á sólarlandaferðum hefur aukist til muna. Fólk skipuleggur ýmist ferðalagið sjálft eða kaupir svokallaðar pakkaferðir.

„Ýmis hagræði felast í því að kaupa pakkaferð frekar en að skipuleggja ferð sjálfur á netinu,“ segir Steinunn Tryggvadóttir, sölustjóri hjá Úrval Útsýn. „Þegar þú bókar farseðil sjálfur á netinu þá er lítið um tryggingar.“

Steinunn segir þessu öðruvísi farið með pakkaferðir því um þær gilda lagaákvæði sem veita neytendum vernd. „Alferðarlögin eru skýr og einföld. Skilmálarnir okkar fara vel saman við skilmála neytendasamtakanna,“ segir hún.

Mikilvægt er að neytendur átti sig á stöðu sinni við kaup á slíkum ferðum. Lög um alferðir tryggja rétt kaupanda pakkaferðar til þess að afpanta ferðina vegna stríðsaðgerða, borgarastyrjaldar, lífshættulegra smitsjúkdóma eða annars sem hefur afgerandi áhrif á framkvæmd pakkaferðar á áfangastað eða nálægt honum. Ef ferð er aflýst á kaupandi rétt á fullri endurgreiðslu eða að fá í staðinn sambærilega ferð.

„Það er ekki mikið um að ferðir séu felldar niður,“ segir Steinunn. „Það getur þó alltaf eitthvað komið upp. Til dæmis ef við setjum upp ferð, tökum frá sæti og pöntum gistingu úti í heimi en hún selst ekki þá þurfum við að fella hana niður. Þá látum við vita í tæka tíð svo að það verði enginn skaði fyrir kaupandann.“

Fyrrnefnd lög tryggja það að verði kaupandi ferðar fyrir tjóni vegna verulegra breytinga á ferðatilhögun eða vegna þess að ferð hefur verið aflýst á hann rétt á skaðabótum.

Steinunn segir slík mál alltaf koma upp endrum og eins.

„Stundum er fólk ósátt og þá er sérstök þjónustudeild hjá okkur sem fer í það að kynna sér málið.“ Hún segir að þjónustudeildin og sá sem kvartar komist stundum ekki að sameiginlegri niðurstöðu en að þá sé hægt að fara með málið til Neytendasamtakanna.

„Fólk er meðvitað um sinn neytendarétt,“ segir Steinunn sem kveður Úrval Útsýn hafa alferðarlögin í hávegum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×