Viðskipti innlent

Tugmilljóna hönnun í súginn

Jóhannes Stefánsson skrifar
Egill Guðmundsson, einn eigenda Arkís, segir borgina sólunda tíma og fé borgarbúa með því að nota ekki teikningar Arkís af Dalskóla í Úlfarsárdal.
Egill Guðmundsson, einn eigenda Arkís, segir borgina sólunda tíma og fé borgarbúa með því að nota ekki teikningar Arkís af Dalskóla í Úlfarsárdal. Fréttablaðið/Vilhelm
„Það er verið að beita okkur ranglæti,“ segir Egill Guðmundsson hjá arkitektastofunni ARKÍS vegna meintra samningsbrota af hálfu Reykjavíkurborgar.

Arkís og Reykjavíkurborg sömdu árið 2008 um að Arkís skyldi „fullhanna grunnskóla við Úlfarsbraut í Úlfarsárdal,“ eins og segir í samningnum. Hlé var gert á verkinu eftir hrun en Arkís var kallað aftur til síðla árs 2012. Að sögn Egils er borgin nú að vanefna samninginn. Reykjavíkurborg hafnar því.

„Það var allt tilbúið fyrir aðalútboð, það var búið að hanna lóð og gera yfirlit yfir leiktæki,“ segir Egill. Tugir milljóna króna hafa þegar verið greiddar fyrir verkið.

Á forsíðu Fréttablaðsins 4. desember síðastliðinn sagði að á árinu 2013 yrðu 250 milljónir settar til verkefnisins og efnt til hönnunarsamkeppni. Egill segir þetta fyrstu upplýsingarnar sem Arkís fékk um samkeppnina. „Á engu stigi málsins var samningnum sagt upp né farið í neitt uppgjör,“ segir hann.

Egill segir arkitektastofuna vanhæfa til þátttöku í fyrirhugaðri samkeppni því hann hafi meðal annars tekið þátt í undirbúningshópi um stækkun skólans með sundlaug og íþróttahúsi og verið viðriðinn allan undirbúning fyrir hönnunina frá upphafi. Borgin forðist öll samskipti vegna málsins. „Við erum ítrekað búnir að óska eftir fundum með borginni, án árangurs,“ segir hann.

Hönnun ARKÍS á Dalskóla var langt á veg komin og búið var að kynna hana fyrir íbúum í hverfinu.Mynd/Arkís
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, vill ekki tjá sig um hvort og þá hvernig samningurinn við Arkís hafi verið til lykta leiddur. Í ljósi þess að áformað sé að reisa sundlaug, íþróttahús og fleira við skólann þurfi samkvæmt reglum borgarinnar að efna til útboðsins.

„Þessir arkitektar telja að þeir eigi að fá að teikna þetta allt saman án samkeppni eða útboðs. Þeir hafa fengið töluvert mikið borgað,“ segir Dagur.

Egill segir að þótt til standi að byggja fleira en aðeins skólann sé borgin samningsbundin við teiknistofuna um hönnun skólans. Dagur segir hins vegar „augljóslega um að ræða allt annað verkefni en áður“ og að ekki verði horfið frá hönnunarsamkeppninni sem borgarráð samþykkti í júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×