Viðskipti innlent

Telur of hart að segja upp Smartbílum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gegn grundvallarsjónarmiðum um meðalhóf að segja upp samningi við Smartbíla að óreyndum vægari úrræðum, segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.
Gegn grundvallarsjónarmiðum um meðalhóf að segja upp samningi við Smartbíla að óreyndum vægari úrræðum, segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.
Samningi Kópavogsbæjar við akstursþjónustuna Smartbíla verður ekki sagt upp eins og minnihlutinn í bæjarráði lagði til.

Minnihlutinn vildi að samningnum yrði rift eftir að í ljós kom að lögregla rannsakar mál eins bílstjóra Smartbíla sem sakaður er um kynferðisbrot gagnvart konu sem hann ók fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi. Félagsmálaráð bæjarins hafði gert alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Smartbíla við tilkynningu um meint brot bílstjórans. Ráðið tók ekki afstöðu til uppsagnar samningsins en krafðist þess að síritar yrðu settir í alla bílana til að bæta öryggi farþeganna.

Tveir bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með uppsögn samningsins en tveir voru á móti og einn sat hjá. Tillagan féll því á jöfnum atkvæðum.

„Vekur það furðu fulltrúa Samfylkingar, VG og Næstbesta flokksins að meirihlutinn ætli sér að halda áfram að kaupa þjónustu af fyrirtæki þar sem svo alvarlegur trúnaðarbrestur hefur orðið,“ bókuðu Pétur Ólafsson, Arnþór Sigurðsson og Hjálmar Hjálmarsson, sem sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi án atkvæðisréttar.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri úr Sjálfstæðisflokki, og Una Björg Einarsdóttir af Kópavogslistanum sögðu það ganga gegn grundvallarsjónarmiðum um meðalhóf að segja upp samningi við Smartbíla að óreyndum vægari úrræðum. „Uppsögn samnings er þrautalending reynist önnur úrræði ekki tæk,“ bókuðu Ármann og Una.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×