Gagnrýni

Litla ljót og galni afinn

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Flekkuð
Flekkuð
Bækur

Flekkuð Cecilia Samartin Þýðing: Nanna B. Þórsdóttir Vaka-Helgafell



Suður-amerískar töfraraunsæissögur nutu mikilla vinsælda og aðdáunar á áttunda og níunda tug síðustu aldar. Þar blandaðist saman framandi heimsmynd, gamlar sagnir og oftar en ekki framúrskarandi texti svo úr varð suðupottur ástríðna og lita sem vesturlandabúar hökkuðu í sig. Flekkuð er markaðssett sem angi af þessum meiði, en því miður er þar fátt að finna sem gerði sögur eins og Hús andanna og Hundrað ára einsemd að eftirlætisbókum heillar kynslóðar.



Ástæður þess eru mýmargar en þó fyrst og fremst sú að höfundurinn Cecilia Samartin hefur hvorki þá sagnagáfu né stílfimi sem til þarf að skapa eftirminnilega sögu. Saga mexíkósku stúlkunnar Jamilet, sem ber mark djöfulsins á bakinu, og spænska sérvitringsins Peregrínó, sem hún hjúkrar á geðveikrahæli, hefur öll element sem til þarf í magnaða frásögn en lyppast niður í loðmullulegt melódrama þar sem hvorki vottar fyrir mannþekkingu né þjóðfélagslegri gagnrýni. Að líkja bókinni við bækur Isabel Allende er ekki bara lymskuleg og fölsk markaðssetning heldur beinlínis móðgun við Allende.



Í stuttu máli fjallar sagan um uppvöxt Jamilet í litlu þorpi í Mexíkó og eineltið sem hún verður fyrir frá fávísum þorpsbúum vegna valbrár á baki sem þjóðtrúin skilgreinir sem merki djöfulsins sjálfs. Heldur er þó farið hratt yfir sögu og lítil áhersla lögð á lýsingar á andrúmslofti þorpsins, óttann og einangrunina. Á unglingsárum flýr Jamilet síðan til Los Angeles þar sem hún fær vinnu við að sinna hinum spænska Peregrínó á hælinu. Eftir það skiptist sagan nokkuð jafnt á milli lýsinga á daglegu lífi hennar og sögu gamla mannsins um það þegar hann gekk Jakobsveginn til Santíagó á Spáni sem ungur maður.

Á dæmigerðan Hollywood-máta leysast síðan öll vandamál á örskotsstundu og lesandinn situr eftir klórandi sér í kollinum yfir þessari fljótaskrift á málum. Persónur beggja aðalpersónanna eru auk þess lítt sannfærandi og aukapersónur stela oft á tíðum senunni, einkum hin skapstóra og drykkfellda frænka Carmen. Engin tilraun er gerð til að lýsa aðstæðum ólöglegra innflytjanda í BNA, allt flýtur þetta áfram átakalítið fyrir utan stöku ástarsorg. Sannarlega illa farið með góðan efnivið.



Þýðing Nönnu B. Þórsdóttur er hin læsilegasta og rennur vel, en góð þýðing er engan veginn nóg til þess að gera þessa sögu ánægjulega aflestrar.

Niðurstaða: Ansi þunn og grunn saga um mjög áhugavert efni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×