Fastir pennar

Hrifla og heimurinn

Ólafur Þ. Stephensen skrifar

Margt í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar bendir til að hún geti staðið undir því markmiði sínu að hefja „nýja sókn í þágu lands og þjóðar“.

Nýja stjórnin boðar lækkun skatta á fólk og fyrirtæki og einfaldara skattkerfi sem letur fólk ekki til að bjarga sér. Hún ætlar að vinda ofan af misráðnum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og endurskoða rammaáætlun um virkjanir og náttúruvernd þannig að mat sérfræðinga en ekki pólitík ráði virkjanakostum.

Hún boðar víðtækt samráð og sátt við aðila vinnumarkaðarins, pólitískan stöðugleika í fjárfestingarumhverfinu, afnám gjaldeyrishaftanna og að íslenzkt efnahagslíf njóti trausts á ný, bæði innanlands og erlendis. Allt ætti þetta að geta stuðlað að því að koma hjólum atvinnulífsins í hraðari snúning á ný.

Ef ríkisstjórnin ætlar að ná árangri þarf hún að opna íslenzkt efnahagslíf upp á gátt og tryggja samkeppnishæfni þess á alþjóðlegum vettvangi. Um slíka stefnu eru höfð falleg orð í kaflanum um utanríkismál.

Ýmislegt í stefnuyfirlýsingunni er hins vegar alls ekki í þeim anda, heldur frekar þeirra „þjóðmenningarlegu“ hughrifa frá Hriflu-Jónasi sem óneitanlega svifu yfir vötnum á fundarstað verðandi landsfeðra á Laugarvatni í gær. Þeir stefna til dæmis ekki að því að Ísland eignist stöðugan, alþjóðlegan gjaldmiðil. Gera á hlé á viðræðum um raunhæfasta möguleikann á slíku, aðild að Evrópusambandinu, og ekkert kemur í staðinn.

Án markmiðs um nýjan gjaldmiðil verður erfiðara að komast út úr höftunum. Þó má segja að það sé jákvætt að í stefnuyfirlýsingunni sé dyrunum í Evrópumálunum ekki skellt alveg í lás, heldur skilin eftir ofurlítil rifa. Ríkisstjórnin ætlar heldur ekki að gera neitt til að efla samkeppni í landbúnaðinum og lækka þannig matarverð.

Í upptalningu um skatta og gjöld sem á að lækka er ekkert talað um ofurtollana á búvörur. Það á að halda áfram að moka peningum almennings í óhagkvæmt landbúnaðarkerfi og framsóknarmaður í landbúnaðarráðuneytinu mun passa gamla kerfið eins og margir aðrir á undan honum.

Svo er mikið vafamál að markmið stjórnarinnar um að ná peningum út úr erlendum kröfuhöfum þjóni markmiðinu um aukið traust íslenzks efnahagslífs á alþjóðavettvangi. Kröfuhafarnir eru nefnilega fjárfestar líka, þótt hræfuglsstimplinum hafi verið klínt á þá, og vilja ekki láta fara illa með sig frekar en aðrir fjárfestar. Hætt er við að margir sem létu loforð um skuldaleiðréttingu ráða atkvæði sínu í kosningunum verði fyrir vonbrigðum með stjórnarsáttmálann. Skuldaleiðréttingin er ekki í hendi, óútfærð og ótímasett. Ef peningarnir frá kröfuhöfum skila sér ekki á að stofna sérlegan leiðréttingarsjóð, en ekki hefur verið útskýrt hvaðan peningarnir í honum eiga að koma.

Miklar vonir eru bundnar við nýja ríkisstjórn, ekki sízt hjá fólki sem er athafnasinnað og vill nýta tækifærin í íslenzku efnahagslífi. Af þeim sökum er talað fullmikið um starfshópa og nefndir í stefnuyfirlýsingunni; það ætti að vera meiri áherzla á skjótar aðgerðir. Og nýir húsbændur í stjórnarráðinu ættu fremur að beina augum út í heim en heim að Hriflu.






×