Viðskipti innlent

Turner hefur sett 4,5 milljarða í Latabæ

Freyr Bjarnason skrifar
Tökur eru í fullum gangi á fjórðu þáttaröðinni af Latabæ í myndverinu í Garðabæ.
Tökur eru í fullum gangi á fjórðu þáttaröðinni af Latabæ í myndverinu í Garðabæ. Fréttablaðið/vilhelm
Tökur á fjórðu þáttaröð Latabæjar eru nýhafnar í Garðabæ. Þrettán þættir verða teknir upp og að sögn Hallgríms Kristinssonar, yfirmanns kynningarmála og viðskiptaþróunar hjá Latabæ, er allt komið á blússandi siglingu.

„Húsið er stútfullt. Það er ekki hægt að leggja nálægt því. Það eru 150 starfsmenn búnir að bætast við fyrir utan hefðbundið starfsfólk,“ segir hann. Tökurnar standa yfir fram í lok október en júlímánuður verður gefinn í sumarfrí. Eftirvinnsla fer svo fram hér á landi og líkast til verður þáttaröðin tilbúin í byrjun næsta árs.

Samkvæmt tölum frá Sigurði Stefánssyni, fjármálastjóra Latabæjar, hafa um fjórir og hálfur milljarður króna streymt inn í íslenska hagkerfið frá eiganda þáttaraðarinnar, Turner Broadcasting, síðastliðin tvö ár. „Það eru ofsalega margir sem koma að þessu og margfeldisáhrifin inn í hagkerfið eru gífurlega mikil. Ég veit ekki um neitt einstakt fyrirtæki sem er að koma með eins mikla fjárfestingu inn í landið og Turner Broadcasting. Þetta er mjög stórhuga fyrirtæki sem hefur miklar mætur á myndverinu okkar og sýnir það í verki.“

Íþróttaálfurinn Magnús Scheving hefur verið duglegur undanfarið við að kynna þriðju þáttaröðina, sem er nýfarin í loftið í Bretlandi. Hún verður tekin til sýninga hér á landi á Stöð 2, í Bandaríkjunum og víðar um heim síðar í þessum mánuði. Á dögunum var Magnús staddur á samkomu á vegum bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC í Los Angeles þar sem sumardagskráin var kynnt, þar á meðal Latabæjarþættirnir.

Kryddpían Mel B heilsaði upp á Magga, auk þess sem stjörnur á borð við Heidi Klum, Usher og Shakiru voru á svæðinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×