Viðskipti innlent

Ráðherra vill atvinnusköpun, forstjórinn hámarks arðsemi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra lýsti mikilli óþreyju á haustfundi Landsvirkjunar um hversu hægt gengi að koma atvinnuskapandi fjárfestingum í gang. Hún sagði fyrirtækið geta haft úrslitaáhrif í að koma álverinu í Helguvík í gang.

Togstreita birtist á fundinum milli ráðherrans og forstjóra Landsvirkjunar um hlutverk fyrirtækisins í þessum efnum. Ráðherrann lýsti þessum skilningi á hlutverki stærsta orkufyrirtækis landsins: „Að framfylgja þeirri stefnu eigenda sinna að nýta orkuauðlindir landsins til atvinnuuppbyggingar og aukins hagvaxtar.”

Ráðherrann sagði litlar fjárfestingar í landinu algjörlega óviðunandi, ekki skorti áhuga erlendra fjárfesta.

„Verð ég að viðurkenna að ég er orðin ansi óþreyjufull. Og ég vil fara að sjá árangur og að verkefnin verði að veruleika.” Hún nefndi álverið í Helguvík, framkvæmd sem skipti ekki aðeins Suðurnesjamenn máli heldur landsmenn alla. „Og hefur beðið allt of lengi.”

Hún kvaðst finna skýran vilja hjá forsvarsmönnum Norðuráls að ljúka verkefninu. Aðkoma Landsvirkjunar að því máli gæti haft mikilvæga þýðingu, jafnvel úrslitaáhrif.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, varði mestum tíma ræðu sinnar í að fjalla um sæstreng í samræmi þá sýn sem hann hefur um hlutverk Landsvirkjunar: „Að hlutverk Landsvirkjunar sé að hámarka afrakstur af þeim orkuauðlindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir á sjálfbæran og hagkvæman hátt.”

Grafísk mynd sem hann sýndi gefur til kynna að fá megi fjórfalt hærra verð fyrir orkuna ef hún yrði seld til Bretlands um sæstreng.

Forstjórinn kvaðst þó vel skilja að ráðherrann væri óþreyjufullur.

„En við vinnum hörðum höndum að því að fá viðskiptavini og trúum því að það muni gerast. En vissulega tekur það tíma og stundum má segja of langan tíma. Ég skil það vel. En það stendur ekki á okkur, - bara svo það komi fram,” sagði Hörður Arnarson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×